Ný stjórn sjálfkjörin

Frá hluthafafundinum í dag.
Frá hluthafafundinum í dag. Ljósmynd/Eyjafréttir

Hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum sem fram fór í morgun stóð einungis í átta mínútur en þar var ný stjórn félagsins sjálfkjörin. Aðalafundur félagsins var haldinn í júlí en komist var að þeirri niðurstöðu að stjórnarkjörið hefði verið ógilt og var það því endurtekið. Í millitíðinni drógu Guðmundur Kristjánsson og Hjálmar Kristjánsson framboð sín til baka þar sem þeir töldu þessi vinnubrögð ekki í samræmi við reglur hlutafélagalaga.

Nýja stjórn VSV skipa Guðmundur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Takts, Einar Þór Sverrisson hæstaréttarlögmaður, Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Vestmannaeyjabæ, Íris Róbertsdóttir kennari og Ingvar Eyfjörð, eigandi Álftavíkur ehf. Í varastjórn eru Eyjólfur Guðjónsson, skipstjóri á Kap VE, og Guðmunda Áslaug Bjarnadóttir, fiskverkandi í Vestmannaeyjum.

Drógu framboð sín til baka

Fyrir hluthafafundinn sendu Guðmundur og Hjálmar frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

„Á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum þann 6. júlí sl. voru undirritaðir kosnir í stjórn og varastjórn félagsins. Þegar talningu var lokið líkaði meirihluta hluthafa félagsins ekki niðurstaða kosninganna. Arnar Sigurmundsson fundarstjóri, sem er stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða og tengist hópi meirihluta hluthafa Vinnslustöðvarinnar sem Haraldur Gíslason fer fyrir, ákvað í samráði við þessa örfáu hluthafa að kosning til stjórnar væri ógild og kosið skyldi aftur. Þessum vinnubrögðum var mótmælt tafarlaust á aðalfundinum. Þrátt fyrir mótmæli og bókanir fundarmanna ákvað fundarstjóri að kjósa aftur. Sú stjórn sem var kosin hefur ekki tekið til starfa. Málið er nú hjá hlutafélagaskrá RSK sem hefur ekki enn kveðið upp úrskurð sinn. Við höfum rétt fram sáttahönd til meirihlutans, svo friður gæti skapast um félagið, en því hefur verið hafnað.

Þrátt fyrir allt þetta hefur verið boðað til nýs hluthafafundar í Vinnslustöðinni hf. síðar í dag þar sem á að kjósa þriðju stjórnina á þessu ári. Við teljum þetta vera ólöglega og grófa valdníðslu af hálfu meirihluta hluthafa og gróft brot á reglum hlutafélagalaga. Þykir okkur einnig miður að sjá Lífeyrissjóð Vestmannaeyja, sem lengst af var hlutlaus um málefni Vinnslustöðvarinnar, taka þátt í aðför meirihlutans að okkur, ásamt stjórnarmanni í Landssamtökum lífeyrissjóða. Vakna þá spurningar um hvort lítið sé að marka baráttu lífeyrissjóðanna fyrir bættum stjórnarháttum í hlutafélögum.

Við tilkynnum hér með að við höfum ákveðið að draga framboð okkar til stjórnarsetu í Vinnslustöðinni hf.  til baka þar sem við teljum boðaðan hluthafafund sem fara á fram í dag ólöglegan.“

Frétt mbl.is: Hafnaði lögbannskröfu Brims hf.

Frétt mbl.is: Krefst lögbanns á hluthafafund VSV

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK