„Þú ættir að segja af þér“

John Stumpf kom fram fyrir nefndina í gær.
John Stumpf kom fram fyrir nefndina í gær. AFP

Bankastjóri bandaríska bankans Wells Fargo hefur verið hvattur til þess að segja af sér í kjölfar sektar sem bankinn fékk fyrir að stofna gervireikninga. 

John Stumpf kom fram fyrir bandaríska þingnefnd í gær þar sem hann var spurður út í málið en bankinn var sektaður um 185 milljónir bandaríkjadali fyrr í mánuðinum eftir að upp komst að starfsmenn hans hefðu stofnað reikninga án vitunda viðskiptavina, í þeirra nafni. Gengu sumir starfsmannanna svo langt að búa til gervinetföng til þess að stofna aðgang að netbönkum fyrir fólk án vitundar þeirra.

Fyrri frétt mbl.is: Sektaður um 21 milljarð

Öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren sagði Stumpf að hann ætti að segja af sér og að stjórnendur bankans hefðu þrýst á starfsmenn sína þannig að þeir neyddust til að svindla á viðskiptavinum til þess að ýta undir sölutölur. 

Bankastarfsmennirnir opnuðu rúmlega tvær milljónir reikninga án vitundar eða leyfis viðskiptavina.

Stumpf baðst innilegar afsökunar á málinu og að hafa brugðist við of hægt en 5.000 starfsmenn voru reknir eftir að málið komst upp.

„Ég biðst innilegrar afsökunar á því að okkur mistókst að uppfylla skyldur okkar,“ sagði Stumpf áður en hann kom fram fyrir nefndina. „Það er engin spurning að við misnotuðum traust viðskiptavina okkar í einhverjum tilfellum,“ sagði hann jafnframt en bætti við að stjórnendur bankans hefðu aldrei fyrirskipað eða viljað að starfsmenn myndu skrá viðskiptavini í þjónustu sem þeir vildu ekki.

Sagðist hann þó bera ábyrgð á þessari „siðlausu söluframkvæmd“.

Munu hafa samband við alla viðskiptavini bankans

Warren, sem hefur lengi verið mjög gagnrýnin á bandaríska bankakerfið, sagði afsökunarbeiðni hans ekki breyta neinu. „Þú þrýstir svo á starfsmenn þína að þeir svindluðu á viðskiptavinum,“ sagði Warren. „Þú ættir að segja af þér. Þú ættir að gefa til baka peningana sem þú tókst á meðan svindlið var í gangi.“

Warren er ekki sú fyrsta sem hvetur Stumpf til að segja af sér en hann hefur ekki svarað þeim áköllum. „Við vitum núna að við hefðum átt að gera meira fyrr til þess að útrýma þessari siðlausu iðju,“ sagði hann.

Að sögn bankans verður haft samband við hvern einasta viðskiptavin til þess að sjá hvort að reikningar þeirra hafi verið misnotaðir í svindlinu. Þá verður haft samband við hundruð þúsunda viðskiptavina með kreditkort og athugað hvort þeir hafi sjálfir pantað þau.

Í framtíðinni verða sendir staðfestingatölvupóstar til viðskiptavina bankans innan klukkustundar eftir að nýr reikningur er stofnaður.

„Þú þrýstir svo á starfsmenn þína að þeir svindluðu á …
„Þú þrýstir svo á starfsmenn þína að þeir svindluðu á viðskiptavinum,“ sagði Warren. „Þú ættir að segja af þér. Þú ættir að gefa til baka peningana sem þú tókst á meðan svindlið var í gangi.“ AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK