7% með milljón á mánuði eða meira

Fjórðungur launamanna var með 433 þúsund krónur eða minna í …
Fjórðungur launamanna var með 433 þúsund krónur eða minna í heildarlaun og tíundi hver launamaður var með lægri laun en 348 þúsund krónur fyrir fullt starf. mbl.is/Styrmir Kári

Á síðasta ári voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 612 þúsund krónur á mánuði en helmingur launamanna hafði 535 þúsund krónur eða meira. Munurinn skýrist af dreifingu launa þar sem hæstu laun hækka meðaltalið og kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en kveða ekki á um hámarkskjör.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Þar segir að fjórðungur launamanna hafi verið með 433 þúsund krónur eða minna í heildarlaun og tíundi hver launamaður var með lægri laun en 348 þúsund krónur fyrir fullt starf. Þá voru rúmlega 7% fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði með yfir milljón á mánuði í heildarlaun.

Af launamönnum sem starfa hjá ríkinu voru 23% með heildarlaun yfir 800 þúsund krónur á mánuði, 19% launamanna á almennum vinnumarkaði og 5% launamanna sem starfa hjá sveitarfélögum. Hinsvegar voru rúmlega 60% launamanna á almennum vinnumarkaði með heildarlaun undir 600 þúsund krónum, 45% ríkisstarfsmanna og 85% starfsmanna sveitarfélaga.

Heildarlaun fullvinnandi starfsmanna á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 637 þúsund krónur á mánuði árið 2015 en heildarlaun opinberra starfsmanna 583 þúsund krónur. Þar af voru heildarlaun ríkisstarfsmanna 681 þúsund krónur en 490 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Lægstu launin í fræðslustarfsemi

Stjórnendur á almennum vinnumarkaði að meðaltali með heildarlaun 1.156 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf, stjórnendur hjá ríki með 968 þúsund krónur en 722 þúsund krónur hjá sveitarfélögum. Verkafólk var hins vegar með 477 þúsund króna heildarlaun á almennum vinnumarkaði, 495 þúsund krónur hjá ríki og 424 þúsund krónur hjá sveitarfélögum. Starfsmenn sveitarfélaga voru með lægst heildarlaun óháð starfsstétt.

Heildarlaun voru hæst í atvinnugreininni fjármála- og vátryggingastarfsemi eða 815 þúsund krónur að meðaltali á mánuði, næst komu heildarlaun í rafmagns-, gas- og hitaveitum 808 þúsund krónur. Lægstu heildarlaunin voru í fræðslustarfsemi, 505 þúsund krónur. Sé horft til dreifingar á heildarlaunum þá var launamunur mestur innan fjármálastarfsemi en minnstur í fræðslustarfsemi. Miðgildi heildarlauna var hins vegar hæst í veitum, eða 772 þúsund krónur, en dreifing launa þar var minni en í fjármálageiranum og því færri gildi til hækkunar meðallauna.

Hægt er að sjá umfjöllun Hagstofunnar í heild hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK