Auðkýfingar líklegir ráðgjafar og ráðherrar Trump

Hverjir verða ráðgjafar Trump þegar það kemur að efnahaginum?
Hverjir verða ráðgjafar Trump þegar það kemur að efnahaginum? AFP

Það er álit margra að fólk hafi kosið Donald Trump sem forseta Bandaríkjanna vegna loforða hans sem sneru að efnahagsmálum og hagvexti. Nú þegar þrír dagar eru liðnir frá því að hann bar sigur úr býtum í kosningunum hafa miðlar farið að velta fyrir sér hvaða efnahagsfræðinga hann tekur með sér í Hvíta húsið en í kosningabaráttunni sagðist hann þekkja vel alla þá sem mestu máli skiptu í þeim bransa.

BBC hefur tekið saman lista yfir þá sem líklegt þykir að verði í efnahagsteymi Trump.

Tveir úr kvikmyndabransanum á listanum

Uppi eru hugmyndir um að Steve Mnuchin verði næsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna en hann er fyrrverandi yfirmaður hjá bankanum Goldman Sachs. Hann var fjármálastjóri kosningabaráttu Trumps og fyrir nokkrum dögum sagði Trump að hann yrði líklegur ráðherra í ríkisstjórn sinni.

Hann starfar nú sem framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Dune Capital Management. Hann hefur einnig reynt fyrir sér í kvikmyndaiðnaðinum og framleiddi m.a. myndirnar American Sniper og Suicide Squad.

Mnuchin var fjármálastjóri kosningabaráttu Trump og fyrir nokkrum dögum sagði …
Mnuchin var fjármálastjóri kosningabaráttu Trump og fyrir nokkrum dögum sagði Trump að hann yrði líklegur ráðherra í ríkisstjórn sinni. Af Wikipedia

Þá er Thomas Barrack talinn líklegur til þess að taka einhverskonar stöðu í liði Trump en hann er m.a. stjórnarformaður framleiðslufyrirtækisins Miramax og býr í Los Angeles. Þar stjórnar hann fasteignafélaginu Colony Capital.

Barrack starfaði í ríkisstjórn Ronalds Reagans á sínum tíma í innanríkisráðuneytinu og hefur því reynslu af því að vinna fyrir bandarísk stjórnvöld. Hann og Trump eru gamlir vinir en Barrack er af líbönskum ættum.

Barrack safnaði rúmlega 32 milljónum Bandaríkjadala fyrir kosningabaráttu Trumps og sagði í samtali við fjölmiðla í síðasta mánuði að hann styddi hugmyndir Trumps um lægri skatta.

Thomas Barrack er m.a. stjórnarformaður framleiðslufyrirtækisins Miramax og býr í …
Thomas Barrack er m.a. stjórnarformaður framleiðslufyrirtækisins Miramax og býr í Los Angeles. Þar stjórnar hann fasteignafélaginu Colony Capital.

Nóg af milljarðamæringum

Annar sem er talinn líklegur til þess að taka sæti í efnahagsteymi Trumps er milljarðamæringurinn John A. Paulson. Hann er þekktur á Wall Street og vakti það heimsathygli árið 2008 þegar hann spáði hruni fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum skömmu fyrir alheimskreppuna. Paulson græddi í kjölfarið milljarða Bandaríkjadala.

Trump og Paulson saman á fundi í september.
Trump og Paulson saman á fundi í september. AFP

Wilbur Ross er annar milljarðamæringur í herbúðum Trumps sem er talinn fá hlutverk í ríkisstjórn hans. Ross þénaði mest í starfi sínu sem gjaldþrotasérfræðingur hjá fjármálaráðgjafafyrirtækinu Rothchilds en tímaritið Forbes lýsir honum sem „aðþrengdum fjárfesti“. Hann er þekktur fyrir að taka við fyrirtækjum í fjárhagsvanda og endurskipuleggja þau. Ross er öflugur listsafnari og kvæntur Hilary Geary sem er þriðja eiginkona hans. Að mati BBC eru líkur á því að hann verði gerður að viðskiptaráðherra.

Í samtali við CNBC fyrr á árinu sagðist hann styðja Trump því að Bandaríkin þyrftu „róttækari ríkisstjórn“.

Wilbur Ross er metinn á 2,9 milljarða Bandaríkjadali
Wilbur Ross er metinn á 2,9 milljarða Bandaríkjadali

Þá er Dan DiMicco einnig á lista BBC en hann er stjórnarformaður Nucor, sem er stærsti stálframleiðandi Bandaríkjanna. Hann þekkir ekki Trump persónulega en var ráðinn til kosningabaráttu hans sem viðskiptaráðgjafi.

DiMicco er höfundur bókarinnar American Made: Why Making Things Will Return US To Greatness, þar sem han færir rök fyrir því að Bandaríkjamenn eigi að leggja áherslu á aukinn iðnað og veltir fyrir sér „fölskum fyrirheitum“ þegar  kemur að „grænum störfum og földum kostnaði við útvistun“.

Dan DiMicco þekkir ekki Trump persónulega en var ráðinn til …
Dan DiMicco þekkir ekki Trump persónulega en var ráðinn til kosningabaráttu hans sem viðskiptaráðgjafi. Af heimasíðu DiMicco
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK