Birta tekur til starfa á morgun

Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með yfir 18.000 virka …
Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með yfir 18.000 virka sjóðfélaga og hreina eign sem nemur um 310 milljörðum króna.

Á morgun tekur Birta lífeyrissjóður formlega til starfa en hann varð til við sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs. Sameiningin var samþykkt einróma á aukaársfundum beggja sjóða og síðan staðfest á stofnfundi Birtu 29. september síðastliðinn. 

Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með yfir 18.000 virka sjóðfélaga og hreina eign sem nemur um 310 milljörðum króna. Birta lífeyrissjóður er til húsa í Sundaboganum, Sundagörðum 2 í Reykjavík, þar sem Sameinaði lífeyrissjóðurinn hafði aðsetur.

Skrifstofa Stafa lífeyrissjóðs verður opin í síðasta skipti að Stórhöfða 31 á morgun. Starfsfólk Stafa flytur sig síðan um set og mætir til starfa hjá Birtu í Sundaboganum að morgni mánudags 5. desember.

Liður í hagræðingu í lífeyriskerfinu

Stofnun Birtu lífeyrissjóðs er liður í hagræðingu sem átt hefur sér stað í lífeyriskerfi landsmanna undanfarin ár og miðar að því að styrkja innviði sjóðanna svo þeir geti haldið áfram að mæta auknum kröfum og veita betri þjónustu án viðbótarkostnaðar,“ segir í fréttatilkynningu.

„Lífeyrissjóðum hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Þeir voru til að mynda 51 talsins í árslok 2002 en eru nú 24 eftir sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs.“

Að stórum hluta iðnaðarmannasjóðir

Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóður voru báðir að stórum hluta iðnaðarmannasjóðir. Til Stafa greiddu starfsmenn fyrirtækja sem áður tilheyrðu Sambandi íslenskra samvinnufélaga og félagsmenn í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Matvæla- og veitingafélagi Íslands.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn varð til í ársbyrjun 1992 við sameiningu Lífeyrissjóðs byggingamanna og Lífeyrissjóðs málm- og skipasmiða. Síðar bættust við lífeyrissjóðir bókagerðarmanna, garðyrkjumanna, múrara, verkstjóra og fleiri.

Formaður stjórnar Birtu lífeyrissjóðs er Þorbjörn Guðmundsson og Anna Guðný Aradóttir er varaformaður. Þá er Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu en hann var áður framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK