Grímur Sæmundsen hlaut viðskiptaverðlaunin í ár

Grímur Sæmundsen.
Grímur Sæmundsen. mbl.is/Golli

Grímur Sæmundsen er handhafi viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins í ár. Þetta kemur fram í blaðinu í dag.

Grímur stofnaði Bláa lónið, ásamt öðrum, árið 1992 en á síðustu árum hefur orðið sprenging í fjölda þeirra sem heimsækja lónið og sömuleiðis í afkomu félagsins. Milljarða króna uppbygging er fjármögnuð að öllu leyti með sjóðsstreymi Bláa lónsins, samkvæmt umfjöllun Viðskiptablaðsins í dag.

Bláa lónið hagnaðist 15,8 milljónir evra, eða um 2,3 milljarða króna, á árinu 2015, samanborið við 11,6 milljóna evra, eða 1,8 milljarða króna, hagnað árið á undan. Tekjur fyrirtækisins námu 54,3 milljónum evra, tæpum 7,6 milljörðum króna, en voru 39,9 milljónir evra, eða rúmir 6,2 milljarðar króna, árið 2014. EBITDA af rekstrinum reyndist 21,3 milljónir evra, eða 3,1 milljarður króna, og jókst um hálfan milljarð króna milli ára.

Á aðalfundi fyrirtækisins, sem haldinn var í lok maí 2016, var samþykkt að greiða hluthöfum 10 milljónir evra, eða 1,4 milljarð króna, í arð vegna síðasta rekstrarárs.

„Vöxtur Bláa lónsins undanfarin ár hefur verið í takt við þróun ferðaþjónustunnar, sem nú aflar þjóðinni meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur atvinnugrein,“ segir Grímur Sæmundsen forstjóri í tilkynningu um afkomuna, sem send var til fjölmiðla í maí. „Nýtt met var sett í fjölda heimsókna í Bláa lónið árið 2015 en þær voru 919 þúsund talsins.“ Árið 2014 voru heimsóknirnar hins vegar 766 þúsund.

Eignir námu um síðustu áramót 10,6 milljörðum króna en skuldir rétt rúmum fimm milljörðum. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins stóð í 52% við síðustu áramót, en það var 36% ári fyrr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK