Heimild vogunarsjóðs til að eiga Lýsingu skapar ekki fordæmi

„Við fylgdum hlutfallsreglunni, þannig að það hvað skoðun er ítarleg …
„Við fylgdum hlutfallsreglunni, þannig að það hvað skoðun er ítarleg fer eftir eðli starfseminnar, og við viljum vara við að það séu dregnar of víðtækar ályktanir um fordæmisgildið. Þetta er því ekki endilega fordæmisgefandi,“ sagði Jón Þór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stutta svarið er að ef þetta væri viðskiptabanki þá þurfa ekki endilega sömu viðmið að gilda,“ segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), í samtali við Morgunblaðið, spurður að því hvaða fordæmi það gæfi að hafa síðasta föstudag metið móðurfélag BLM Investment ehf., írska aflandsfélagið Burlington Loan Management DAC., auk tengdra aðila, Deutsche International Finance á Írlandi (DIFIL), Walkers Global Shareholding Services Limited og bandaríska vogunarsjóðsins Davidson Kempner Capital Management LP, hæf til að fara með allt að 100% virkan eignarhlut í fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu í gegnum eignarhald sitt í móðurfélagi Lýsingar, Klakka ehf. „Við fylgdum hlutfallsreglunni, þannig að það hvað skoðun er ítarleg fer eftir eðli starfseminnar, og við viljum vara við að það séu dregnar of víðtækar ályktanir um fordæmisgildið. Þetta er því ekki endilega fordæmisgefandi,“ sagði Jón Þór.

Könnuðu í mörgum löndum

Jón Þór segir að ítarleg könnun hafi verið gerð á eignarhaldi Burlington. „Eins og komið hefur fram þá tók það sinn tíma, og það gefur til kynna að þetta mál er ekki alveg einfalt.“

Jón Þór segir að haft hafi verið samband við fjármálaeftirlit nokkurra landa. „Við höfðum samband við írska, breska og bandaríska fjármálaeftirlitið. Auk þess skiptumst við á upplýsingum við gríska fjármálaeftirlitið, en Burlington hefur fjárfest þar í landi og hefur verið metið hæft til að fara með virka eignarhluti í grískum fjármálafyrirtækjum.“

Jón segir að flókið sé að ákvarða hver hinn raunverulegi eigandi félagsins er. „Við teljum hinsvegar að öllum kröfum hafi verið fullnægt í þessu tilviki.“

Hann segir að FME viti nú hverjir beri ábyrgð á rekstri Burlington, en það séu þrír fjárfestingarsjóðir. „Við gengum úr skugga um að í eigendahópi þeirra væru ekki aðilar sem eru virkir aðilar í þessum undirliggjandi sjóðum sem þarf að meta sérstaklega. Við höfum því metið félögin sem að þessu standa, þ.e. Davidson, Burlington og DIFIL, og gengið úr skugga um að öllum hæfiskröfum sé fullnægt.“

Sjóðir á aflandssvæði

Davidson Kempner er bandarískur vogunarsjóður með höfuðstöðvar í New York sem hefur látið mikið til sín taka í slitabúum íslensku bankanna eftir hrunið í gegnum Burlington Loan Management. Deutsche International Finance er aflandsþjónustufyrirtæki á Írlandi en í grein í The Irish Times á síðasta ári var greint frá því að Burlington væri eitt 480 fyrirtækja sem skráð eru hjá Deutsche í fjármálamiðstöðinni á Írlandi. Fjórða tengda félagið, Walkers Global, er lögfræðistofa sem sérhæfir sig í ráðgjöf í skattaskjólum, eins og sést á heimasíðu félagsins.

– Veldur það engum áhyggjum?

„Þarna er ákveðinn eignastrúktúr sem hefur einkenni ógegnsæis, en við gengum úr skugga um eðlilega framkvæmd í okkar nágrannalöndum og fylgdum sambærilegum leiðbeiningum sem gefin eru út af evrópsku eftirlitsstofnununum.“

Einn stjórnarmaður

Samkvæmt ársreikningi BLM Investment ehf. fyrir reikningsárið 2015 er enginn starfsmaður starfandi hjá fyrirtækinu. Aðeins einn stjórnarmaður er hjá félaginu, Magnús Scheving Thorsteinsson, sem jafnframt er stjórnarformaður Lýsingar og forstjóri Klakka.

Tengdu félögin
» Davidson Kempner er bandarískur vogunarsjóður með höfuðstöðvar í New York.
» Burlington Loan Management er eitt 480 fyrirtækja sem skráð eru hjá Deutsche í fjármálamiðstöðinni á Írlandi.
» Walkers Global er lögfræðistofa sem sérhæfir sig í ráðgjöf í skattaskjólum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK