„Við erum að dýfa tánum í vatnið“

Costco rekur 725 vöruhús um allan heim.
Costco rekur 725 vöruhús um allan heim.

Costco á Íslandi er hugsað sem hálfgert útibú frá Costco í Bretlandi og ef vel gengur eru stjórnendur fyrirtækisins jákvæðir fyrir því að skoða fleiri opnanir á Norðurlöndum. Þetta segir Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi, í samtali við mbl.is.

Í dag eru 725 Costco-vöruhús rekin um allan heim, þar af 508 í Bandaríkjunum, 94 í Kanada, 28 í Bretlandi og tvö á Spáni. Þá mun Costco opna vöruhús í Frakklandi, skammt frá París, á svipuðum tíma og vöruhúsið í Garðabæ í maí.

Sáu að íslenskir neytendur væru vel að sér

Að sögn Pappas hófst hugmyndin að opnun Costco á Íslandi í Kanada þegar ákveðin íslensk fyrirtæki hófu innflutning á vörum framleiddum af fyrirtækinu. Stjórnendur Costco í Kanada byrjuðu í kjölfarið að skoða íslenska markaðinn og komust að þeirri niðurstöðu að það yrði áhugavert að opna Costco á Íslandi. Verkefnið var síðan flutt til Costco í Bretlandi sem verður móðurfélag starfseminnar á Íslandi.

„Við komum hingað og mátum markaðinn. Vorum fyrst ekki alveg viss en eftir að hafa kynnt okkur málið fannst okkur mikið til koma. Við sáum það að íslenskir neytendur væru vel að sér og kunnu að meta góða vöru og gott verð. Þá tókum við eftir því að verðið hér var mjög hátt og við trúum því að við getum komið með vörur á markaðinn á miklu lægra verði og í meira magni fyrir íslenska neytendur.“

Pappas segir Costco þó skilja að á Íslandi þarf að gera ráð bæði fyrir tollum á ákveðnar vörur og flutningskostnaði. „Við vitum að við munum ekki geta selt vöru á sama verði hér og í Los Angeles til dæmis. En við vitum að það gengur mjög vel hjá okkur í Bretlandi og á Spáni.“

Hann segir að það séu margir markaðir þar sem Costco myndi ef til vill ekki virka. „Það eru lönd sem eru of lítil til þess að standa undir stórri yfirbyggingu og skrifstofum. Því vildum við prófa að opna á Íslandi og hafa það sem hálfgert útibú frá stærri markaði, það er Bretlandi.“

Pappas segir opnunina á Íslandi á vissan hátt ákveðna tilraun. „Við erum að dýfa tánum í vatnið, reyna að hefja starfsemi út frá stærra móðurfélagi. Ef það virkar á Íslandi erum við mjög jákvæð fyrir öðrum mörkuðum eins og Noregi, Svíþjóð og Danmörku,“ segir Pappas. „Þá gætum við jafnvel opnað höfuðstöðvar Costco á Norðurlöndum í framtíðinni.“

Pappas kynnti Costco fyrir Íslendingum á Hilton í dag.
Pappas kynnti Costco fyrir Íslendingum á Hilton í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Myndu hiklaust selja vín

Costco seldi eldsneyti fyrir 9,1 milljarð Bandaríkjadala á síðasta fjárhagsári. Einungis meðlimir Costco hafa aðgang að dælustöð fyrirtækisins í Kauptúni en eldsneytið verður selt undir vörumerkinu Krikland Signature sem er einkamerki Costco.

Pappas segir að íslenskt olíufélag muni sjá um birgðaþjónustu en ekki væri búið að ganga frá endanlegum samningum. „En okkar markmið er að spara fólki peninga á eldsneyti,“ segir Pappas.

Þá verða lyf seld í Costco, bæði lyfseðilsskyld og önnur og á síðasta ári voru lyf fyrir 41 milljón lyfseðla seld í Costco. Aðspurður hvernig það gangi fyrir sig segir hann það gert í samstarfi við yfirvöld og að Costco geti ekki stjórnað verðinu á lyfseðilsskyldu lyfjunum. „En við munum selja önnur lyf og vítamín og þar mun fólk spara peninga. Lyfjasala er stór hluti af okkar viðskiptamódeli og við þekkjum þennan bransa vel.“

Eitt sem Costco selur í mörgum verslunum sínum sem verður ekki í boði hér á landi er áfengi. Eins og flestir vita er ríkið með einkarétt á sölu áfengis. Aðspurður hvort Costco myndi selja vín hér á landi væri það í boði segir Pappas það nokkuð víst. „Ef þingið myndi breyta löggjöfinni þannig að Costco gæti selt áfengi myndum við nýta okkur það. Vín er meðal okkar sterkustu vara og það er eitthvað sem við gerum mjög vel.“ Hann bætir þó við að Costco starfi eftir lögum á hverjum markaði fyrir sig. Á sumum stöðum má bara selja vín og bjór, sumum vín, bjór og sterkt vín og á sumum stöðum ekki neitt áfengt. „Við förum eftir lögum á hverjum einasta stað. En ég held að við gætum boðið upp á meira úrval af víni en Íslendingar eru vanir og ýtt undir samkeppnina. En þegar allt kemur til alls virðum við stjórnvöld og lögin. Þetta er auðvitað sérstakur vöruflokkur.“

Þessi bangsi er meðal þess sem verður til sölu hjá …
Þessi bangsi er meðal þess sem verður til sölu hjá Costco á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk endist lengi hjá fyrirtækinu

Á kynningarfundinum í dag var farið yfir starfsmannahald Costco og þar kom fram að eitt sem gerist iðulega hjá fyrirtækinu er að fólk byrjar ungt að vinna þar og helst í starfi í tugi ára. Til að mynda er stærstur hluti starfsmanna Costco búinn að vinna þar í tíu ár eða lengur. Aðspurður hvort það sé eitthvað sem Costco hafði að leiðarljósi frá upphafi segir Pappas að það hafi eignlega bara gerst.

„Við bara vitum að ef við ráðum fólk og borgum því góð laun verður það hjá okkur lengi. Það borgar sig til lengri tíma litið að borga fólki hærri laun og halda í það frekar en að borga lágmarkslaun og vera með stöðuga starfsmannaveltu og fólk í þjálfun,“ segir  Pappas og bætir við að Costco sé í góðu samstarfi við verkalýðsfélög á þeim stöðum þar sem fyrirtækið starfar.

Þá veitir Costco fólki reglulega launahækkanir eftir ákveðinn tíma í starfi. „Þannig að ef þú ert búinn að vinna hjá okkur í fjögur ár ertu með mun hærri laun en hjá öðrum sambærilegum fyrirtækjum.“

Costco á Íslandi mun ráða um 200 starfsmenn til að byrja með, þar af 22 stjórnendur. Aðeins einn starfsmaður kemur að utan, þ.e. Bretinn Brett Vigelskas sem verður verslunarstjóri. Þegar er Costco farið að taka á móti umsóknum og aðildarumsóknum. Pappas segir fyrirtækið finna nú þegar fyrir miklum áhuga, þremur mánuðum fyrir opnun.

„Við finnum fyrir miklum áhuga og við lítum jákvæðum augum á þetta.“

Gestir fundarins gátu skoðað vörur frá Costco, eins og vínglös, …
Gestir fundarins gátu skoðað vörur frá Costco, eins og vínglös, örbylgjupopp og klæðnað. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK