Gæti reynt á bindiskyldu fyrir dómi

Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Spurning er hversu langt er hægt að teygja sig í að hindra flæði fjármagns til og frá landinu án þess að brjóta í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum, segir Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.

Hann bendir á að reglur um frjálst flæði fjármagns séu grunnstoðir EES-samningsins en Seðlabankinn hefur fengið ýmis fjárstýringartæki eftir að höftum var komið á. Gylfi segir Seðlabankann ekki hafa ótakmarkað svigrúm til að setja steina í götu þeirra sem vilja fara með fjármagn til og frá landinu.

Í fyrra voru samþykkt lög sem veita Seðlabankanum heimild til þess að setja bindiskyldu á innstreymi fjármagns til landsins en markmiðið er að takmarka óæskilegt innflæði erlends gjaldeyris sem skapað getur kerfislega áhættu.

Gylfi segir að tæki Seðlabankans muni vonandi duga til þess að bregðast við mögulegu innstreymi skammtímafjármagns og vaxtamunarviðskiptum. 

„En það á eftir að reyna á það og hugsanlega duga þau ekki alveg. Þá gætu menn farið að teygja sig enn lengra og þá er spurning hversu langt er hægt að ganga til að hindra flæði fjármagns til og frá landinu,“ segir hann.

Erum að hverfa frá undanþágu

Gylfi bendir á að gjaldeyrishöftin hafi byggt á neyðarúrræði í samningnum og að nú sé verið að hverfa frá þeirri undanþágu. „Þá þurfum við að vera þátttakendur í þessum opna markaði með fjármagn eins og aðrir á svæðinu,“ segir hann. „Það gæti reynt á það fyrir dómstólum og þá annaðhvort hérna heima eða hjá EFTA-dómstólnum ef menn verða ósáttir við tilburði Seðlabankans til að draga úr flæði,“ segir Gylfi.

Spurður hvort hann telji bindiskylduna þannig geta gengið gegn EES-samningnum segist Gylfi ekkert vilja fullyrða um það. „Ég geri fastlega ráð fyrir að Seðlabankinn og ráðuneytin hafi skoðað það til þaula og komist að þeirri niðurstöðu að þetta gangi upp. En maður veit ekkert fyrir víst fyrr en látið verður á það reyna. Og það gæti gerst.“

Seðlabankinn hefur ekki ótakmarkað svigrúm segir Gylfi.
Seðlabankinn hefur ekki ótakmarkað svigrúm segir Gylfi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Seðlabankinn hefur krónuna í hendi sér

Hvað möguleg afdrif krónunnar eftir þriðjudaginn varðar segist Gylfi ekki þora að spá til um það. „Það fer meðal annars eftir því sem Seðlabankinn vill. Hann hefur það í hendi sér með sínum inngripum en hann hefur haldið krónunni að einhverju marki niðri með gjaldeyriskaupum.“

Þá segir hann óvíst hvernig fari með aflandskrónurnar. „Það er spurning hvort fleiri sjóðir taki tilboði Seðlabankans um að fara út með töluverðu álagi og ég veit ekki hvernig það spilast. Ef sú snjóhengja, sem kannski er ekki lengur snjóhengja heldur bara smá skafl, minnkar ætti það að róa gjaldeyrismarkaðinn enn frekar. Þó er hún orðin svo lítil að hún er ekkert verulegt áhyggjuefni lengur,“ segir Gylfi Magnússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK