„Vínrekkahús“ byggð á mettíma

Byggingar Junior Living eru byggðar í tvennu lagi. annars vegar …
Byggingar Junior Living eru byggðar í tvennu lagi. annars vegar grindin á staðnum og hins vegar íbúðir í verksmiðjunni.

Byggingar sem líkja má við vínrekka hafa reynst góð lausn við bráðum húsnæðisvanda í Svíþjóð. Claes Eliasson hjá Junior Living segir íslenska markaðinn svipaðan þeim sænska þar sem húsnæðisþörf er mikil. 

Claes var með erindi á fundi Íbúðalánasjóðs um hagkvæmt húsnæði í gær. Húsnæðismarkaðurinn í Svíþjóð er nokkuð líkur þeim íslenska að því leyti að framboð mætir ekki eftirspurn eftir íbúðum. Þetta er bæði vegna mikillar fólksfjölgunar og skorts á nýbyggingum. Þá er einnig vöntun á iðnaðarmönnum og allt hefur þetta dregið húsnæðisverð upp úr öllu valdi.

Claes segir ástandið í Svíþjóð svipað því sem var á sjöunda áratugnum þegar ráðist var í að byggja eina milljón íbúða og húsa á tíu árum. Það tókst en Claes segir þessi húsnæði ekki vinsælan kost í dag. Þarna hafi verið byggt of hratt og í lélegum gæðum. Hætta sé á þessu þegar vandinn er bráður og segir Claes að Íslendingar ættu ekki að feta sömu braut. Huga þurfi að hönnun og endingargildi. Leggja eigi meiri áherslu á gæði en kostnað. Hjá Junior Living er reynt að huga að báðu en fyrirtækið hefur á þremur árum byggt nærri 1.000 íbúðir. Þá hefur arkitekt fyrirtækisins hlotið verðlaun sem arkitekt ársins í Svíþjóð.

Íbúð frá Junior Living.
Íbúð frá Junior Living.

20 íbúðir á viku

Það sem fyrirtækið gerir er að byggja einingu, nokkurs konar grind, úr stáli eða steypu. Íbúðir sem passa í grindina eru síðan settar saman í verksmiðju fyrirtækisins. Að því loknu er íbúðum raðað í grindina og er húsið að lokum klætt með þaki og klæðingu sem getur verið með ýmiss konar áferð. Að sögn Claes má helst líkja þessu við að koma flöskum fyrir í vínrekka.

Junior Living starfrækir eina verksmiðju og er að opna aðra. Í verksmiðjunni eru framleiddar um tíu íbúðir á viku þegar unnið er á venjulegum vöktum. Á álagstímum hefur afkastagetan þó verið aukin. Nú þegar nýja verksmiðjan er að komast í gagnið verður hægt að tvöfalda afköstin og gerir fyrirtækið ráð fyrir að framleiða 20 íbúðir í hverri viku.

Í verksmiðjunni er stórt rými þar sem íbúðirnar eru settar saman. Byrjað er á gólfinu, veggjum, rafmagni og pípulögnum. Þá er flísalagt, parketlagt, málað og rýmið gert íbúðarhæft að öllu leyti. Eftir samsetningu eru einingarnar geymdar fyrir utan verksmiðjuna áður en þær eru keyrðar að grindinni. Þegar komið er á leiðarenda tekur alls fjórar klukkustundir að koma íbúðinni fyrir og tengja rafmagnið.

Allt ferlið með byggingu grindarinnar, íbúðanna og samsetningar tekur um fimm mánuði fyrir fjölbýlishús.

Það tekur fjórar klukkustundir að tengja eina íbúð.
Það tekur fjórar klukkustundir að tengja eina íbúð.

Þarf bara að klippa á böndin

Fyrirtækið er nú að byggja sitt fyrsta hótel í Stokkhólmi og verður það með 150 herbergjum. Claes segir eiganda hafa beðið fyrirtækið um að koma húsgögnum einnig fyrir áður en einingarnar eru settar saman. Verða húsgögnum því raðað á sinn stað í verksmiðjunni áður en þau verða bundin niður fyrir flutninga. Þegar hótelið verður afhent þurfa starfsmenn einungis að ganga á milli, klippa á böndin og opna staðnn að sögn Claes.

Hér geta áhugasamir skoðað vefsíðu Junior Living.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka