Tíska ekki síður viðskipti en list

Kolfinna Von Arnardóttir er framkvæmdastjóri Reykjavík Fashion Festival.
Kolfinna Von Arnardóttir er framkvæmdastjóri Reykjavík Fashion Festival. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenskir hönnuðir eru komnir með tengingar inn í stórar verslanir á borð við Saks Fifth Avenue eftir Reykjavík Fashion Festival sem var um síðustu helgi. Kolfinna Von Arnardóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, hefur háleit markmið og vill stuðla að stóraukinni sókn í útflutningi á íslenskri hönnun.

Þetta var fyrsta hátíðin sem Kolfinna stjórnaði ásamt sínu teymi en í fyrra keypti félagið Artikolo hátíðina af Jóni Ólafssyni. Kolfinna er aðaleigandi Artikolo en meðal annarra hluthafa eru Upp­lif­un­ar­stof­an ehf., sem rek­ur m.a. Reykja­vik Escape í Borg­ar­túni, og Aron Ein­ar Gunn­ars­son, landsliðsfyr­irliði í knatt­spyrnu, og unnusta hans Krist­björg Jón­as­dóttir.

Kolfinna segist himinlifandi með hátíðina. „Ég er ennþá brosandi. Þetta var stórt og umfangsmikið verkefni en þetta er í sjöunda skipti sem hátíðin er haldin og í fyrsta skipti sem nýja teymið sér um hana. Við fórum í stefnumótun og ákváðum að innleiða nýja hluti. Það gekk allt mjög vel.“

Meðal helstu áherslubreytinga nýrra eigenda var að leggja meira í kynningu á hönnuðum fyrir hátíðina. Tökulið frá Condé Nast gerði stuttmyndir um hvern og einn auk þess sem hönnuðir voru sendir í myndatöku, viðtöl og var vefsíðu með efninu var komið á fót. „Síðan ákváðum við sem hátíð að setja okkur skýra stefnu um að vera meðvituð um umhverfi og sjálfbærni í tísku,“ segir Kolfinna.

Hönnun Anitu Hirlekar á RFF um síðustu helgi.
Hönnun Anitu Hirlekar á RFF um síðustu helgi.

Tískusýning er aðallega fyrir kaupendur

Kolfinna telur að á Íslandi hafi verið lögð of lítil áhersla á viðskiptin sem fylgja tískuheiminum. „Tískuhátíð skilar auðvitað sýnileika fyrir hönnuði og er ákveðið markaðstól en í grunnin er tískusýning haldin fyrir fjölmiðla og aðallega kaupendur.“  

„Það hefur verið erfitt að fá kaupendur til Íslands og fyrir því eru eflaust margar ástæður. Hin augljósa er smæð landsins og fámenni þjóðarinnar, önnur skýring er að reyndir og stórir kaupendur horfa mikið til sögu hönnuða. Íslenskir hönnuðir hafa kannski ekki verið tilbúnir fyrir þessa stærri aðila, en nú er mikil gróska, stóraukning í framleiðslu og fyrir margra hluta sakir er þetta hægt og rólega að breytast," segir hún en bætir við að einnig séu til stór og þekkt nöfn sem leggja áherslu á það nýjasta og ferskasta. „Við náðum að veiða svolítið nýstárlega kaupendur og nokkrir stórir komu til Íslands. Það er strax farið að skila sér í tengslum við stórar verslanir fyrir íslenska hönnuði,“ segir hún.

Komnar tengingar á sýningar og í verslanir

Nefnir hún sem dæmi Elisu Anniss sem starfar fyrir Mint í París en hún kaupir inn fyrir stórar verslanir á borð við Saks Fifth Avenue sem rekur 39 verslanir í 22 ríkjum Bandaríkjanna. Kolfinna segist vita til þess að þegar séu komnar nokkrar tengingar hjá íslenskum hönnuðum inn í Saks vegna komu Anniss um síðustu helgi.

Þá kom Anais Verbo einnig til landsins en hún starfar fyrir Lambert & Associates sem milliliður hönnuða og verslana á borð við Bergdorf Goodman, Neiman Marcus og Harvey Nichols. Kolfinna segir Verbo hjálpa hönnuðum að komast á þann stað að geta framleitt fyrir stórar verslanir. „Það verður oft vandamál hjá litlum hönnuðum að framleiða fyrir stór fyrirtæki. Þeir geta ekki framleitt í nógu miklu magni og ná ekki að markaðssetja sig á réttan hátt. Hún er manneskja sem hjálpar til og bindur þessa hnúta.“

Þá kom Nana Suzuki einnig á RFF en hún er reynslubolti í tískubransanum með sambönd víða um heim. „Hún er þegar byrjuð að koma okkar hönnuðum í samband við alls konar vörusýningar og tískuviðburði erlendis,“ segir Kolfinna en bætir við að hún geti ekki farið nánar út í málið sem ennþá er á viðkvæmu stigi.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolfinna segir allt þetta fólk hafa kynnt sér íslenska markaðinn vel áður en komið var til landsins. „Þau þekktu hvert einasta nafn áður en þau komu. Hvort sem það var inni á hátíðinni eða ekki. Svo báðu þau okkur um að tengja sig við ákveðna aðila. Þau lögðu mesta áherslu á okkar hönnuði en við tengdum þau einnig við aðra sem stóðu fyrir utan hátíðina og við höldum að séu tilbúnir í þetta ferli.“

Kolfinna segir hönnuði bæði vera komna með tengsl inn í verslanir og inn á tískuviðburði erlendis eftir helgina. Þá sé eitt íslenskt vörumerki alveg tilbúið í þennan markað og mun það sennilega fljótlega skila sér í sölu í Saks Fifth Avenue. Ekki er þó hægt að gefa merkið upp þar sem samningaviðræður standa enn yfir.

Tíska verði stór útflutningsgrein

„Til þess að búa til tískuiðnað á Íslandi þurfum við hæfileikaríka hönnuði, góða framleiðslu og kaupendur. Nú er Ísland í þeirri stöðu að mikill áhugi er á landinu og það er miklu auðveldara en við héldum að ná til þessa fólks,“ segir hún.

„Við horfum svolítið til nágrannalanda í þessu samhengi og þá til dæmis til Danmerkur,“ segir Kolfinna. Tíska er ein af stærstu útflutningsgreinum landsins og hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Greinin velti 42 milljörðum danskra króna, eða sem jafngildir 672 milljörðum íslenskra króna árið 2015 og hefur veltan aldrei verið meiri. „Mestöll viðskiptin eru rakin til tískuvikunnar í Kaupmannahöfn,“ segir Kolfinna og bætir við að aukinn kraftur hafi verið lagður í greinina árið 2012 og að það hafi skilað sér. „Á þremur árum tók markaðurinn risakipp og er textíll í dag orðin ein stærsta útflutningsvara Danmerkur,“ segir hún.

„Síðan tilgreinir Hagstofan fatahönnun ekki einu sinni sérstaklega í sínum upplýsingum. Þetta er því varla mælanlegt hér á landi.“ Spurð hvort hún telji Íslendinga geta stefnt í sömu átt svarar hún játandi og telur ekki þurfa mikið til. „Held það þurfi bara skýra stefnu og markmið.“

Íslenskur hönnuður er að landa samningum við Saks Fifth Avenue.
Íslenskur hönnuður er að landa samningum við Saks Fifth Avenue.

RFF verði heilsársstarfsemi

Þetta telur hún unnt að gera í gegnum RFF en markmiðið er að gera tískuhátíðina að heilsársstarfsemi þar sem vel verður haldið um tengslin sem skapast. „Það sem okkur langar er að hátíðin RFF verði spennandi upphaf fyrir hönnuði og að aukin áhersla verði lögð á það sem gerist eftir á. Viðskiptatengslin. Það er svo mikilvægt að horfa ekki bara á tísku sem list heldur einnig viðskipti. Þetta helst í hendur og það er það sem nýja teymið okkar er að gera.“ Stefnt er að því að halda tískuhátíðina tvisvar á ári; Á haustin og vorin. Haustsýningin yrði þá með öðru móti og með áherslu á kaupendur. 

Kolfinna bendir á að aðstæður eru nú breyttar. Milljónir ferðamanna heimsækja landið á ári hverju og það sé heilmikill meðbyr með landi og þjóð. Ísland sé í tísku. „Það þarf einn aðila sem heldur utan um öll þessi tengsl og getur verið tengiliður hönnuða út á við og innanlands. Okkar ósk er að byggja þetta upp og hvetja til samvinnu.“

Kolfinna segir verkefnið kostnaðarsamt og skiptir stuðningur miklu máli. „Þess vegna skiptir umræðan um að við séum ekki bara tískusýning, heldur einnig að byggja upp iðnað, miklu máli,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka