5G á Íslandi á næstu árum

Sjálfkeyrandi bílar verða möguleiki þegar 5G verður komið í notkun.
Sjálfkeyrandi bílar verða möguleiki þegar 5G verður komið í notkun. AFP

Ísland stendur vel að vígi varðandi aðgengi á tíðni fyrir 5G þjónustu og ætti þjónustan að vera aðgengileg á árunum 2020 til 2025 hér á landi eða jafnvel fyrr. Þjónustan býður upp á mikla möguleika fyrir sparnað í heilbrigðisþjónustu, sjálfkeyrandi bíla, snjallheimili og snjallborgir. Ljóst er því að 5G væðing mun hafa mikil áhrif á okkar daglega líf.

Þetta segir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknisviðs hjá Póst og fjarskiptastofnun. Hann segir 5G bjóða upp á meiri hraða og styttri tengitíma. „Það er styttra frá því að þú sendir beiðni og þangað til þú færð svar. Það skiptir öllu máli í tengslum við þjónustu sem við erum hugsanlega að nota í dag í ljósleiðaratengingu og eigum eftir að nota og upplifa í þráðlausri farnetstengingu á 5G. Þetta er þráðlaus tenging sem færist meira í átt að því sem við þekkjum á fastri ljósleiðaratengingu.“

Hann segir 5G snúast um þjónustu sem gerir meiri kröfur á fjarskiptanetin. „Þá getum við verið að tala um sjálfkeyrandi bíla og jafnvel þjónustu sem heilbrigðiskerfið gæti notað. Fjarvöktun á sjúklingum þar sem öllu máli skiptir að svartíminn sé stuttur og að hægt sé að flytja mikið gagnamagn,“ segir Þorleifur. 

Netöryggi upp á líf og dauða

Samhliða þessu segir Þorleifur nauðsynlegt að huga að netöryggi. „Við þurfum að gæta að því að kerfin séu örugg og þá er ég bæði að hugsa það út frá netöryggi, að kerfin séu alltaf til staðar, og út frá persónuvernd. Að ekki verði hægt að komast inn í persónugreinanleg gögn. Svindl og netárásir er eitthvað sem við höfum miklar áhyggjur af. Ef við erum að tala um heilbrigðisþjónustu eða sjálfkeyrandi bíla erum við jafnvel að tala um líf og dauða. Þannig að það eykur nauðsyn þess að tryggja öryggið.“

Hann segir sjálfkeyrandi bíla ekki möguleika á Íslandi í dag þar sem nethraðinn er ekki nógu mikill og tengitími of langur. „Í dag höfum við ekki þennan stutta tengitíma og mikla hraða í niðurhali og upphali. Í 5G er verið að tala um að fara upp í hraðann 1Gb á sekúndu og jafnvel hraðar, sem er eins og við þekkjum á ljósleiðara í dag. Þann hraða höfum við ekki á 4G.“

Íslendingar standa vel að vígi varðandi 5G væðingu.
Íslendingar standa vel að vígi varðandi 5G væðingu.

Stórborg í hverju ESB-ríki með 5G eftir 3 ár

Staðallinn fyrir 5G er ekki tilbúinn og er netið því ekki komið í almenna notkun þrátt fyrir að ýmis tilraunanet séu í gangi. Stefnt er að því að netið verði tilbúið á næsta ári og hafa Rússar meðal annars lýst yfir vilja til þess að koma því upp fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta 2018. 

Talið er að netið verði komið í notkun að litlu leyti á næsta ári en fari síðan almennt af stað árið 2020. Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að það verði að minnsta kosti ein stórborg í hverju aðildarríki komin með þjónustuna 2020 og árið 2025 eiga allir helstu þéttbýlisstaðir og helstu samgönguæðar að vera með órofna tengingu. 

Aðspurður um möguleika Íslendinga segir Þorleifur að fjarskiptafélögin standi vel að vígi varðandi tíðni fyrir þjónustuna. „Það er í rauninni ekkert sem ætti að hindra það að þjónustan gæti verið á þessu tímabili hjá okkur og jafnvel fyrr,“ segir hann.

Breytingin kemur til með að hafa mikil áhrif á líf almennra borgara þar sem talið er að 5G og tengdir hlutir (e. Internet of things) muni þróast saman. „Þetta býður upp á mikla möguleika varðandi sparnað í heilbrigðisþjónustunni, sjálfkeyrandi bíla, snjallborgir og snjallheimili. Allt eru þetta hlutir sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á okkar daglega líf,“ segir Þorleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK