Arion hagnast um 3,4 milljarða

Hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins 2017 nam 3,4 milljörðum króna samanborið við 2,9 milljarða króna á sama tímabili 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,3% samanborið við 5,7% fyrir sama tímabil árið 2016.

Heildareignir námu 1.119,7 milljörðum króna í lok mars samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 214,6 milljörðum króna í lok mars, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016. Efnahagur bankans er sterkur og hefur mikil áhersla verið lögð á að tryggja lausafjárstöðu í tengslum við afnám fjármagnshafta, sem nú er að mestu lokið.

Eiginfjárhlutfall bankans var 28,0% í lok mars en var 27,1% í árslok 2016. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 27,3% samanborið við 26,5% í árslok 2016.

„AfkomaArion banka á fyrsta ársfjórðungi er í takt við væntingar. Rekstur bankans er stöðugur og bankinn er fjárhagslega sterkur eins og 28% eiginfjárhlutfall ber með sér. Fjárfestingar bankans á síðasta ári hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans,“ er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóraArion banka, í tilkynningu.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki tekin endanleg ákvörðun um skráningu á markað

„Má þar meðal annars nefna aukningu í þóknanatekjum í kjölfar þess að Arion banki tók yfir fjármálaþjónustu á Keflavíkurflugvelli í maí 2016. Einnig aukast tekjur vegna tryggingastarfsemi sem nú er stærri hluti af starfsemi bankans eftir að kaup á tryggingafélaginu Verði gengu í gegn á síðasta ári. Frekari áhrif þeirra kaupa eiga eftir að koma fram eftir því sem samstarf félaganna á sviði sölu trygginga eykst. Það er jafnframt ánægjulegt að launakostnaður bankans hækkar aðeins lítillega frá sama tímabili á síðasta ári þrátt fyrir aukin umsvif.“

Í afkomutilkynningu er haft eftir Höskuldi að líklega verði bankinn skráður á markað og að því loknu verði eignarhald dreift meðal innlendra og erlendra fjárfesta. Ekki hafi þó verið tekin endanleg ákvörðun um skráningu að svo stöddu. Þá vísar hann til þess að nýir hluthafar hafi nýlega komið í hluthafahóp bankans. Segir hann ánægjulegt að hreyfing sé komin á þessi mál, enda hafi það legið fyrir að eignarhald bankans, eins og það hefur verið frá árinu 2010, væri tímabundið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK