Fluglestarfélag leitar til fjárfesta

„Við eigum í viðræðum við innlenda og erlenda aðila um …
„Við eigum í viðræðum við innlenda og erlenda aðila um fjármögnun. Við höfum ákveðið að loka ekki á neitt í þeim efnum. Það er ljóst að það þarf verulegt fjármagn í félagið í haust. Það er stefnt að því að breikka eigendahópinn,“ segir Runólfur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Félagið Fluglestin – þróunarfélag hyggst á næstu mánuðum afla fjár til frekari undirbúnings verkefnisins. Lestin á að liggja ofanjarðar frá Keflavíkurflugvelli að Straumsvík og svo í 15-16 km göngum að BSÍ í Reykjavík.

Upphaf verkefnisins má rekja til þess að Reitir fólu fyrirtækinu Ráðgjöf og verkefnastjórnun að meta raunhæfni hugmyndar um fluglest. Niðurstaðan var kynnt í október 2013 og þótti hún gefa tilefni til frekari rannsókna. Í kjölfarið ákváðu RRV Consulting, Reykjavíkurborg, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco), Efla, Ístak, Landsbankinn og Deloitte að kanna frekar hagkvæmnina. Sá áfangi þótti líka gefa tilefni til að halda verkefninu áfram og er nú komið að næsta áfanga. Danska verktakafyrirtækið Per Aarsleff varð hluthafi í fyrra.

Rætt við erlenda aðila

Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir næsta áfanga kosta um 1,5 milljarða króna.

„Við eigum í viðræðum við innlenda og erlenda aðila um fjármögnun. Við höfum ákveðið að loka ekki á neitt í þeim efnum. Það er ljóst að það þarf verulegt fjármagn í félagið í haust. Það er stefnt að því að breikka eigendahópinn,“ segir Runólfur.

Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Hann minnir á að Landsbankinn sé meðal hluthafa í félaginu og veiti ráðgjöf við fjármögnun.

Spurður hvort almenningi verði boðið að fjárfesta í félaginu segir Runólfur að á þessu stigi sé verkefnið áhættufjárfesting. Fyrst þurfi að sjá til lands í rannsóknum áður en slíkt komi til greina. Það sé enn fyrir hendi ákveðin áhætta í verkefninu.

Í fyrsta lagi viðskiptaáhætta. Hún sé orðin nokkuð þekkt stærð. Í öðru lagi stjórnsýsluleg áhætta. Þeirri áhættu hafi að mestu verið eytt með því að fá heimildir hjá sveitarfélögunum á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu til að setja verkefnið inn á skipulag. Í þriðja lagi sé jarðfræðileg áhætta til staðar.

Hentar vel til framkvæmda

„Við höfum lagt í töluverða greiningu á jarðfræðinni. Við ætlum í tilraunaboranir til að afla gagna. Það er merkilega lítið vitað um jarðlögin undir höfuðborgarsvæðinu. Að öðru leyti eru kostnaðarþættir verkefnisins skýrir. Landið hentar vel til framkvæmda ofanjarðar. Það er tiltölulega slétt og óbyggt. Áhættan liggur í göngunum. Sá þáttur kallar á viðamiklar rannsóknir. Menn þurfa að geta lesið sig algjörlega fyrirfram í gegnum gangastæðið og valið göngunum stæði eftir jarðlögum, sem eru heppileg. Þetta er mikið atriði fyrir fjárfesta. Lega ganganna liggur nokkurn veginn fyrir.“

Miðað við núverandi hugmyndir munu lestargöngin fyrst fara í gegnum nútímahraun, svo Reykjavíkurgrágrýti, þá móberg, svo Elliðavogsset og loks Reykjavíkurgrágrýti.

Runólfur segir aðspurður gert ráð fyrir miklu vatnsstreymi í suðurhluta þessa svæðis, í nútímahrauninu sunnan við Hafnarfjörð.

„Straumsvík heitir ekki Straumsvík að ástæðulausu. Það er mikið vatnsstreymi út í víkina. Nútímahraunið er laust í sér. Það er eitt af úrlausnarefnunum að komast niður um þetta lausa, blauta berg. Það kallar væntanlega á heilsteypingu á göngum á því svæði. Allt eru þetta þó þekktar lausnir en spurning um kostnað,“ segir Runólfur.

Hann segir áætlað að næsti áfangi – fjármögnun, skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum, frumhönnun og rannsóknir – muni taka um 3 ár. Framkvæmdatími sé 4 til 5 ár.

„Við erum að tala um 7-8 ár þangað til fyrsta lestin myndi fara út af brautarpallinum,“ segir Runólfur.

Samkvæmt því gæti fluglestin verið komin í gagnið 2024-2025.

Hlutfallið kann að vera hærra

Félagið kannaði síðastliðið sumar hversu margir flugfarþegar gætu hugsað sér að taka lestina. Sú könnun benti til að hlutfallið væri um 35%. Runólfur segir nýja og óbirta könnun varðandi vetrarferðamenn benda til að hlutfallið gæti verið hærra. Greint verði frá niðurstöðunum í sumar. Þá sé miðað við að 40% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu en starfa á Reykjanesi, eða öfugt, muni taka lestina í vinnuna.

Göngunum er ætlað að stytta ferðatímann frá Keflavíkurflugvelli og að BSÍ úr 50-60 í 18-22 mínútur. Þau verða einbreið nema hvað í Smáralind verður svonefnt stoppispor og á BSÍ verður „gaffall“ á endanum, þ.e.a.s. þegar ein lest kemur inn á brautarpallinn kemur önnur út á hinum pallinum. Brautarpallarnir verða um 250 metra langir. Skal tekið fram að ekki er ákveðið að biðstöð verði í Smáralind. Það kemur líka til greina að hafa aðra biðstöð í Kringlunni, í Hafnarfirði eða við gatnamótin til Grindavíkur/Bláa lónsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka