Fjárfesta í umhverfisvænni matvælaframleiðslu

Woody Tasch, stofnandi Slow Food, segir að hagnaðarsjónarmið reki hann …
Woody Tasch, stofnandi Slow Food, segir að hagnaðarsjónarmið reki hann ekki áfram í umhverfisvænum fjárfestingum. mbl.is/Hanna

Woody Tasch, upphafsmaður Slow Food-hreyfingarinnar, talar fyrir því að fjármagnseigendur leggi að minnsta 1% af auðlegð sinni í að styðja við bakið á litlum, umhverfisvænum matvælafyrirtækjum sem starfrækt eru í nágrenni hvers og eins. Með því sé jafnframt hlúð að menningararfleifð, heilsu neytenda og uppbyggingu nærsamfélaga.

Hreyfingin er rekin án hagnaðarsjónarmiða og tengir saman fjárfesta og matarfrumkvöðla. „Það er ekki hagnaðarvon sem rekur mig áfram heldur langar mig til að skapa langtímavirði fyrir samfélagið,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að hlýnun jarðar sé alvarlegt vandamál sem leysa þurfi með róttækum aðgerðum. „Ein af þeim lausnum er að hægja á ferð fjármagns,“ segir hann og hvetur því til þess að færa hluta af auðlegð fjárfesta úr alþjóðlega hagkerfinu í smærri vistvæn matvælafyrirtæki. „Við erum ekki á móti alþjóðavæðingu heldur á móti því að allt sé alþjóðavætt á kostnað samfélagsins,“ segir Tasch.

Að hans sögn tengja samtökin saman einstaklinga sem hafa fé á milli handanna, matvælafrumkvöðla og bændur og reyni að fræða þá og hvetja áfram í að sinna vistvænum verkefnum.

Sex milljarða fjárfesting

Slow Food-hreyfingin starfar einkum í Bandaríkjunum en teygir anga sína til Kanada, Sviss, Belgíu og Frakklands. Frá árinu 2010 hefur hreyfingin fjárfest fyrir að jafnvirði um sex milljarða króna í rúmlega 600 fyrirtækjum. Meðalfjárhæð sem rennur í hvert og eitt er tæplega tíu milljónir króna. Hann segir ekki ljóst hver arðsemi fjárfestinganna sé því þeim sé ekki stýrt miðlægt heldur ráða meðlimir hvernig þeir haga sínum málum. Megnið af fjárfestingunum séu lán sem veitt séu á lágum vöxtum. „Við munum aldrei hagnast verulega á þessu. Annaðhvort munum við tapa litlu eða græða lítið,“ segir Tasch.

Hann er á eftirlaunum en er í fullu starfi að sinna Slow Money. Á níunda áratugnum starfaði hann sem áhættufjárfestir í New York. Fyrir tíu árum skrifaði hann bók um málefnið sem ber nafnið Inquiries into the Nature of Slow Money: Investing as if Food, Farms, and Fertility Mattered. „Ég var ekki að reyna að hrinda af stað byltingu en þetta varð að hreyfingu,“ segir hann og nefnir að 50-100 þúsund manns teljist til meðlima í Bandaríkjunum. „Tugir þúsunda mæta á fundi,“ segir hann.

Tasch flutti erindi fyrir skömmu í Sjávarklasanum og var hann á vegum frumkvöðlafyrirtækisins Spor í sandinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK