Englandsbanki telur Brexit taka sinn toll

Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka.
Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka. AFP

Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, hefur varað við því að óvissan í kringum fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, einnig þekkt sem Brexit, sé að taka sinn toll af hagkerfinu. 

Þessu er greint frá á fréttavef breska ríkisútvarpsins. Carney ræddi stöðu mála í kjölfar ákvörðunar bankans um að halda vöxtum óbreyttum og lækka hagvaxtarspár. Spáð er 1,7% hagvextir á árinu en í maí var spáin 1,9%. Þá hefur spáin fyrir árið 2018 verið lækkuð um einn tíunda af prósentu í 1,7%.

Það hefur haft í för með sé að gengi pundsins gagnvart evrunni hefur ekki verið lægra í níu mánuði. Carney segir að umfang fjárfestinga hefði verið minna en búist var við og rekur ástæðuna til Brexit. 

„Það er augljóst af samræðum okkar við fyrirtæki um allt land,“ sagði Carney, „að óvissa um samband Bretalands og Evrópulanda hafi áhrif á ákvarðanatöku.“

Hann segir enn fremur að Brexit hafi haft áhrif á launakjör, fyrirtæki séu síður reiðubúin að hækka laun vegna óvissu um markaðsaðgang í Evrópu á næstu árum. Spár bankans um launaþróun hafa einnig verið lækkaðar í 3% úr 3,5% fyrir árið 2018. Aðeins er búist við 2% hækkun launa á þessu ári, nokkuð undir verðbólgunni sem er 2,6%. 

Tregbreytileg laun og vaxandi verðbólga hafa lagst þungt á kaupmátt heimila í Bretlandi og auk þess hefur gengislækkun hækkað verð á innfluttum vörum. Til þess að brúa bilið hafa neytendur tekið lán í auknum mæli á lágum vaxtakjörum. Vextir hafa ekki verið hækkaðir frá árinu 2007 en margir hagfræðingar telja að í ár verði breyting á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK