Mossack Fonseca lokar útibúum

Frá Panama.
Frá Panama. AFP

Lögfræðistofan Mossack Fonseca, sem öðlaðist heimsfrægð í hneykslismálinu tengdu Panamaskjölunum, hefur lokað flestum skrifstofum sínum erlendis. Er það gert vegna mikils samdráttar í rekstri.

„Við höfum lokað um 45 skrifstofum erlendis. Nú eru aðeins sex eftir,“  segir Jürgen Mossack, einn af stofnendum stofunnar. Hann segir að ekki standi til að loka höfuðstöðvum hennar í Panama.

Upplýsingar um fjölmarga viðskiptavini Mossack Fonseca sýndu svart á hvítu hversu margir auðugir einstaklingar í heiminum nýta sér aflandsfélög til þess að fela fjármuni sína. Í Panama skjölunum má finna fólk úr ólíkum stéttum, allt frá kaupsýslumönnum til æðstu þjóðarleiðtoga og þekktra íþróttamanna.

Gögnunum var lekið til þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung sem fékk samtök rannsóknarblaðamanna (International Consortium of Investigative Journalists (ICIJ) í lið með sér og voru birtar fréttir upp úr skjölunum í helstu fjölmiðlum heims 3. apríl 2016.

Meðal þeirra sem koma fyrir í skjölunum er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem þá var forsætisráðherra, David Cameron,  sem þá var forsætisráðherra Bretlands, argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi, forseti Argentínu, Mauricio Macri, spænski kvikmyndaleikstjórinn Pedro Almodovar og leikarinn Jackie Chan. Auk þeirra eru yfir 140 þekktir stjórnmálamenn og aðrar opinberar persónur að finna í skjölunum.

Mossack segir að lekinn hafi haft mikil áhrif á starfsemi og traust lögmannsstofunnar og segir að þau hafi þurft að segja upp starfsfólki.

Á því rúma ári sem liðið er frá því hneykslið komst upp á yfirborðið hafa að minnsta kosti 150 rannsóknir verið settar á laggirnar í yfir 70 ríkjum, samkvæmt upplýsingum frá Center for Public Integrity.

Í júní birti OECD nýjan svartan lista yfir ríki sem ekki taka þátt í aðgerðum gegn skattaundanskoti en þar er aðeins eitt smáríki að finna: Trinidad og Tobago.

.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK