Gjörbreytir framtíð fyrirtækisins

Sebrafiskur.
Sebrafiskur. Ljósmynd/3Z

„Þetta samstarf gjörbreytir öllu í framtíð þessa sprotafyrirtækis. Því fylgir fé og einnig viðurkenning á okkar starfi sem nýtist í frekari sölu,“ segir Karl Ægir Karlsson, einn af stofnendum rannsóknafyrirtækisins 3Z. 

Greint var frá því á mbl.is að íslenska rannsóknafyrirtækið 3Z færi í samstarf með jap­anska lyfja­fyr­ir­tækinu Ono. Samstarfið snýst um þróun á lyfi gegn taugahrörnunarsjúkdómnum MND og mun 3Z framkvæma tilraunir á afbrigðum af lyfjum sem Ono þróar.

„Lyfin þarf að prófa á tilraunadýrum áður en þróunarferlið getur haldið áfram. Við erum búin að þróa fljótlegt og siðlegt próf sem leysir rottur og mýs af hólmi. Í staðinn notum við sebrafiska.“

Sebrafiskar eru hrygg­dýr sem eru með álíka miðtauga­kerfi og menn, og búið er að raðgreina erfðamengi þeirra. 3Z hefur þróað atferlispróf sem greinir mun á sýktum og heilbrigðum fiskum og þannig er hægt að rannsaka hvort að lyfin virki.

Lyfjaþróun á Íslandi smá í sniðum

Fyrirkomulagið er þannig að Ono sendir afbrigði af lyfjunum í millilítra magni til Íslands þar sem rannsóknirnar eru framkvæmdar og 3Z sendir niðurstöðurnar til baka. Karl segir að Ísland sé ákjósanlegur staður fyrir frumlyfjaþróun. 

„Frumlyfjaþróun hefur verið smá í sniðum hérna á Íslandi, þetta hefði líklega verið auðveldara ef við værum á fagsviði sem fleiri á landinu starfa við. Ísland er hins vegar ákjósanlegur staður fyrir frumlyfjaþróun og við erum stolt af því að vera að innleiða ný atvinnutækifæri.“

Fyrir rúmu ári keypti sviss­nesku líf­tækni- og ráðgjafa­fyr­ir­tæk­in Bali­oph­arm og Pri­obi­ocon hlut í 3Z. Bali­oph­arm AG er líf­tæknifyr­ir­tæki með áherslu á þróun nýrra leiða til að meðhöndla sjálf­sónæm­is­sjúk­dóma auk krabba­meina en Probi­ocon GMBH sinn­ir ráðgjöf til lyfja- og líf­tæknifyr­ir­tækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK