Epal og Ísey skyr koma í flugstöðina

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Epal og Ísey skyr munu hefja tímabundinn rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli í vetur. Isavia auglýsti eftir aðilum til að reka veitingasölu eða sérverslun frá byrjun desember til loka maí og urðu Epal og Ísey skyr hlutskörpust. 

Í verslun Epal verða hönnunarvörur með sérstaka áherslu á íslenska hönnun en Epal hefur áður rekið hönnunarverslun í flugstöðinni. Ísey skyr mun bjóða upp á íslenskt skyr og skyrrétti og er þetta í fyrsta sinn sem rekin er veitingasala með sérstakri áherslu á íslenskt skyr í flugstöðinni að því er kemur fram í tilkynningu frá Isavia. 

Epal rekur fjórar verslanir í Reykjavík en Ísey skyr er vörumerki í eigu Mjólkursamsölunnar og Booztbarsins og verður veitingasalan rekin af Lagardére sem rekur nokkra aðra veitingastaði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Isavia auglýsti eftir rekstraraðilum í rýmin og lýstu átta yfir áhuga en þrír skiluðu inn formlegu tilboði. Sérstök valnefnd hafði það hlutverk að leggja mat á tilboðin. Við mat á gögnunum var tekið tillit til þeirra viðmiða sem sett voru fram í auglýsingu og þá sérstaklega hvað varðar þjónustu við þá farþega sem einungis millilenda hér á landi á leið sinni milli heimsálfa.

Í tilkynningunni segir að við mat valnefndar á umsóknum hafi sérstaklega verið hugað að hraðri þjónustu þar sem skiptifarþegar dvelji að meðaltali í um 60 mínútur í flugstöðinni. Í valnefnd sátu einn fulltrúi frá Isavia og tveir utanaðkomandi aðilar.

Þetta er í annað sinn sem Isavia auglýsir eftir rekstraraðilum í tímabundin rými en fyrirkomulagið er þekkt á flugvöllum erlendis. Í sumar og fram til enda nóvember 2017 rekur veitingastaðurinn Sbarro tímabundna veitingasölu í rýminu. Isavia gerir ráð fyrir að bjóða rýmin til leigu að nýju næsta vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK