Seðlabankinn í myrkri

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Samkomulag milli þýska bankans Deutsche Bank og Eignarhaldsfélags Kaupþings, sem fól í sér sáttagreiðslu til Kaupþings að fjárhæð 400 milljónir evra, lá fyrir þann 7. október síðastliðinn, mánuði áður en Eignasafn Seðlabanka Íslands seldi 6% hlut sinn í Kaupþingi til vogunarsjóða sem fyrir voru stórir eigendur í Kaupþingi fyrir 19 milljarða króna. Um þetta vitna gögn sem Morgunblaðið hefur undir höndum og undirrituð eru m.a. af Paul Copley, forstjóra Kaupþings. Hvorki Kaupþing né Deutsche Bank sögðu hins vegar opinberlega frá samkomulaginu þegar það lá fyrir.

Sáttagreiðslan frá Deutsche Bank eyddi mikilli fjárhagslegri óvissu í uppgjöri Kaupþings og leiddi hún til þess að virði bréfa félagsins rauk upp. Þannig jókst verðmæti 6% hlutar í Kaupþingi um fjóra til fimm milljarða þegar hún hafði gengið í gegn og komst í hámæli. Hins vegar var ekki tilkynnt um samkomulagið fyrr en 14 vikum eftir söluna.

Þannig var það ekki fyrr en í lok janúar á þessu ári að greint var frá því að samkomulagið, sem laut að stóru ágreiningsmáli milli Deutsche Bank og Kaupþings, væri í höfn.

 Trúnaðarákvæði Deutsche

Greint var frá því í Markaðnum í vor að Seðlabankinn hefði orðið af milljörðum króna við sölu á bréfum í Kaupþingi til vogunarsjóða. Þar var bent á að í fjárfestakynningu Deutsche Bank fyrir fjórða ársfjórðung 2016 væri greint frá að samkomulag um ágreiningsmál við Kaupþing hefði verið frágengið í október. Fram kom hins vegar að Kaupþing gæti ekki upplýst um þetta, í ljósi trúnaðarákvæða í samningum við Deutsche Bank.

Í samningi, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, kemur fram að vegna þess að Deutsche Bank sé fyrirtæki sem skráð sé á markað, og vegna áhrifa bankans á efnahag Þýskalands og raunar Evrópu allrar, skuli samkomulaginu haldið leyndu.

Seðlabankinn vissi ekkert

Seðlabankinn sagði um mánaðamótin mars/apríl á þessu ári að starfsfólk bankans hefði ekki haft neina vitnesju um umrætt samkomulag fyrr en mörgum vikum eftir að salan fór fram. „Seðlabankinn hafði engar upplýsingar um umrædd viðskipti Kaupþings og Deutsche Bank fyrr en þau voru gerð opinber mörgum vikum eftir að Seðlabankinn seldi skuldabréf sín á Kaupþing,“ sagði í svari Seðlabankans til Markaðarins. Engar opinberar upplýsingar um samning Kaupþings við Deutsche Bank hafi á þessum tíma legið fyrir.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK