Tæpir 12 milljarðar í auglýsingar

Hlutur prentmiðla í auglýsingatekjum hefur fallið úr 60% árið 1996 ...
Hlutur prentmiðla í auglýsingatekjum hefur fallið úr 60% árið 1996 í 49% árið 2015. Mestu munar þar um minnkandi hlut fréttablaða.

Auglýsingatekjur íslenskra fjölmiðla voru í fyrra að raunvirði helmingi minni en árið 2007 þegar best lét. Tekjur fjölmiðla af auglýsingum árið 2015 námu tæpum 12 milljörðum króna. Það samsvarar um 36 þúsund krónum á hvern landsmann.

Fréttablöð eru mikilvægasti auglýsingamiðillinn hér á landi, en í þeirra hlut féll nær önnur hver króna af auglýsingatekjum árið 2015, segir í frétt Hagstofu Íslands.

Hlutur vefmiðla hér á landi rýr

Auglýsingamarkaðurinn hérlendis sker sig í veigamiklum atriðum úr því sem gerist á öðrum Norðurlöndum og víðar. Hljóðvarp og fréttablöð taka til sín stærri hluta af auglýsingatekjum á sama tíma og hlutur vefmiðla er næsta rýr miðað við það sem víðast gerist. Lægri upphæð er jafnframt varið hér á landi til auglýsingakaupa í fjölmiðlum en annars staðar á Norðurlöndum hvort heldur reiknað er á íbúa eða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

„Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 féllu auglýsingatekjur fjölmiðla um 27 af hundraði, reiknað á verðlagi hvers árs. Frá árinu 2010 hafa tekjurnar aukist nær jafnt og þétt mælt á breytilegu verðlagi og er svo komið að samanlagðar auglýsingatekjur fjölmiðla eru ívið hærri en þegar best lét árið 2007 þegar þær voru hæstar. Reiknað í raunvirði (á verðlagi ársins 2015) féllu auglýsingatekjurnar um 68 af hundraði milli áranna 2007 og 2009, en þær hafa síðan vaxið lítillega og eru nú 53 af hundraði lægri en þegar þær voru hæstar.

Tekjur fjölmiðla af auglýsingum árið 2015 voru nær þær sömu og árið 2000, reiknað á raunvirði,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.

Svipuð þróun og annars staðar á Norðurlöndum

Samdráttur í auglýsingatekjum fjölmiðla hér á landi frá 2008 er næsta áþekkur því sem orðið hefur á sumum Norðurlanda. Á árabilinu 2008-2015 drógust auglýsingatekjur fjölmiðla reiknaðar á föstu verðlagi ársins 2008 saman um 22 af hundraði í Danmörku, í Finnlandi nam samdrátturinn 25 af hundraði, í Noregi 15 af hundraði og aðeins fjórum af hundraði í Svíþjóð. Sambærilegar tölur fyrir Ísland eru 23 af hundraði.

Hátt í önnur hver króna sem greidd var fyrir birtingu og flutning auglýsinga í íslenskum fjölmiðlum árið 2015 rann til prentmiðla (fréttablaða og tímarita). Fréttablöð (dagblöð og vikublöð) voru mikilvægasti auglýsingamiðillinn, en 43 prósent auglýsingatekna fjölmiðla féllu þeim í skaut.

Sjónvarp kom næst að mikilvægi. Það var þó ekki nema hálfdrættingur á við fréttablöðin, með um 21 prósents hlut. Því næst kom hljóðvarp með ríflega 15 prósent og vefmiðlar með 13 prósent. Hlutdeild annarra miðla í auglýsingatekjum var talsvert minni, en sex af hundraði teknanna féllu til tímarita (ásamt blaða sem gefin eru út sjaldnar en vikulega) og tæp tvö prósent runnu til kvikmyndahúsa (ásamt útgáfu og dreifingu mynddiska).


Hlutur prentmiðla fellur úr 60 í 49 prósent á 19 árum

„Frá 1996 að telja hefur skipting auglýsingatekna milli einstakra flokka fjölmiðla tekið nokkrum breytingum. Það á einkum við um prentmiðla (fréttablöð og tímarit) en hlutur þeirra hefur fallið úr 60 í 49 af hundraði. Mestu munar þar þverrandi hlutur fréttablaða, en hlutdeild þeirra hefur fallið úr góðum helmingi í ríflega 40 af hundraði.

Þetta má að talsverðu leyti rekja til tveggja samhangandi þátta, annars vegar tilkomu og útbreiðslu vefmiðla og hins vegar til samdráttar í útbreiðslu og lestri blaða í kjölfarið.

Framan af var hlutdeild vefmiðla í auglýsingatekjum næsta takmörkuð, eða innan við fimm af hundraði. Það sem liðið er af þessum áratug hefur hlutur þeirra vaxið hægt en örugglega og er nú svo komið að þrettánda hver króna sem varið er til auglýsinga í fjölmiðlum rennur til þeirra.

Árið 2015 runnu tæpar sex af hverjum tíu krónum auglýsingatekna á vefnum til vefja í tengslum við hefðbundna fjölmiðla. Mikilvægi sjálfstæðra vefmiðla hefur farið jafnt og þétt vaxandi undanfarin ár.

Árið 2015 öfluðu sjálfstæðir vefmiðlar fjórðu hverrar krónu sem varið var til auglýsingakaupa í vefmiðlum. Inni í tölum um auglýsingatekjur vefmiðla eru ekki tekjur útlendra vefmiðla af íslenskum auglýsingum.

Ætla má að sú upphæð sem runnið hefur árlega til útlendra vefja fyrir greiðslu á birtingu íslenskra auglýsinga sé talsvert lægri en það sem íslenskir vefir bera úr býtum, eða innan við fjórðungur af tekjum þeirra, sé miðað við upplýsingar Fjölmiðlanefndar frá birtingarhúsum um skiptingu birtingarfjár 2015 og 2016 (www.fjolmidlanefnd.is),“ segir ennfremur í frétt Hagstofu Íslands.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir