Aldrei fengið hagstæðari kjör

Bjarni Benediktsson ráðherra.
Bjarni Benediktsson ráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissjóður Íslands hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra, sem jafngildir um 61,5 milljörðum króna. Þetta er hagstæðasta lán sem ríkissjóður hefur tekið að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. 

Skuldabréfin bera 0,5% fasta vexti og eru gefin út til 5 ára á ávöxtunarkröfunni 0,56%. Í tilkynnningu vef Stjórnarráðsins segir að fjárfestar hafi sýnt útgáfunni mikinn áhuga og nemi eftirspurn um 3,9 milljörðum evra eða ríflega áttfaldri fjárhæð útgáfunnar.

Fjárfestahópurinn samanstendur af seðlabönkum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Evrópu. Umsjón var í höndum Citi, Barclays, Deutsche Bank og Nomura.

Samhliða nýju útgáfunni gerði ríkissjóður tilboð í eldri skuldabréfaútgáfu frá árinu 2014 sem nam 750 milljónum evra. Eigendur bréfa að nafnvirði 397,6 milljónir evra eða um 49 milljarðar króna tóku tilboði ríkissjóðs og fengu þeir sem vildu forgang í nýju útgáfunni. Heildarskuldsetning ríkissjóðs eykst um 12,5 milljarða króna við aðgerðina.

„Þessi útgáfa markar tímamót en ríkissjóður hefur aldrei tekið lán á hagstæðari kjörum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. „Þátttakan í endurkaupunum og eftirspurn eftir nýju útgáfunni er merki um traust fjárfesta og er viðkurkenning á þeim góða árangri sem náðst hefur ríkisfjármálum og við stjórn efnahagsmála.“

Hann telur að hækkun lánshæfismats Fitch í síðustu viku hafi án efa haft jákvæð áhrif. Aðgerðin sé liður í að framfylgja langtímastefnu í lánamálum ríkisins þar sem markmiðin séu meðal annars þau að tryggja aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum til lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK