Félagið burðaðist með ósjálfbærar skuldir

Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Orri Hauksson, forstjóri Símans. mbl.is/Golli

Starfsemi Símans er margvísleg. Fyrirtækið hefur gengið í gegnum magnaðar breytingar á þeim mörgu árum sem það hefur verið til en Síminn kemur nú í fyrsta sinn inn á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Orri Hauksson forstjóri segir sögu Símans næstum því vera bergmál af sögu landsins síðustu öldina.

Hér ræðir Orri umhverfi og starfsemi Símans og hvernig það að fá stimpilinn „framúrskarandi“ – á einum tíma sem fyrirtæki – felur í sér að takast á við urmul breytinga á næstu stund.

„Lykilbreyta í skilgreiningunni á Framúrskarandi fyrirtæki er efnahagsleg afkoma. Síminn hefur farið í gegnum miklar breytingar undanfarinn áratug og ánægjulegt að hafa komst í flokk framúrskarandi fyrirtækja. Við eigum heima í þessum flokki,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, og vísar í árangurinn sem hefur náðst í rekstri fyrirtækisins frá fjármálakreppunni 2008, en Síminn var einkavæddur þremur árum fyrr og hátt kaupverðið varð að skuldum félagsins.

„Í kjölfar bankahrunsins og gengislækkunar krónunnar lét efnahagur Símans mjög á sjá. Burðaðist félagið með ósjálfbæra skuldsetningu í mörg ár þar á eftir. Hluta skulda var að lokum breytt í hlutafé fyrir fimm árum, hlutaféð sem fyrir var var skrifað niður og efnahagur félagsins var endurskipulagður. Í framhaldinu var ráðist í endurhönnun rekstrar og viðskiptamódels félagsins.“ Félagið var skráð á hlutabréfamarkað 2015 og byrjaði að greiða arð til hluthafa 2016.

Sviptingar undanfarin ár

„Endursköpun tekur hins vegar aldrei enda. Til að mynda endurfjármögnuðum við allar skuldir félagsins í fyrrasumar og munum örugglega gera það aftur á næstu árum, eftir því sem aðstæður kalla á. Síminn hefur þannig hakað í mörg box undanfarin misseri. Við erum stolt af umbreytingu Símans fram að þessu, en henni er hvergi lokið.“ Margra ára undirbúningur og aðgerðir síðustu ára hafi unnið með félaginu.

Orri segir mikla þróun hafa orðið hjá Símanum á liðnum misserum. „Starfsfólki Símans hf. fækkaði um fjórðung frá því í janúar 2016 og um meira en helming frá því í einkavæðingunni 2005. Við notum mörg þúsund færri fermetra undir starfsemina en fyrir skömmu og höfum endursamið við birgja. Við höfum lagt áherslu á að lækka kostnað þar sem hefðbundnir tekjupóstar hafa lækkað hjá okkur, svo sem í farsíma og talsíma. Ýmsir aðrir tekjustraumar hafa verið skapaðir og hafa hækkað á móti, en umsvif okkar í heild hafa dregist saman. Við höfum líka selt frá okkur einingar og einfaldað tilveru okkar. Fókus stjórnenda eru takmörkuð auðlind, sem best er að ofnýta ekki.“

Ásýnd stöðugleika

Hann segir að breytingarnar í fjarskiptagreininni hafi leitt til þessarar þróunar á rekstrinum til samræmis. „Þótt ásýnd Símann sé að vissu leyti stöðugleiki er eini stöðugleikinn sá að við erum í stöðugum breytingum til að laga okkur að markaði sem er á fullri ferð.“

Hverjar eru helstu breytingarnar í dag fyrir fyrirtæki eins og Símann, er það fjórða iðnbyltingin?

„Já, meðal annars. Gervigreind, gagnagnótt, 3G, 4G, fjártækni, 5G og fjórða iðnbyltingin. Okkur hættir til að vera sjálfhverf og einblína á tækniheitin sem við mótumst af. Viðskiptavininum er nokk sama hvað tæknin heitir. Hann vill bara góða þjónustu, öryggi og að við einföldum líf hans í stað þess að flækja það. Við hugum sífellt að innri nýsköpun og umbótum í vinnubrögðum. Við höfum sjálfvirknivætt mörg ferli innanhúss og lagt önnur af. Mikilvægasta ákvörðunin sem hægt er að taka er að hætta einhverju, leggja af þjónustu, selja frá sér fyrirtæki, hætta við verkefni. Þannig þróumst við hraðar.“

Orri segir samkeppni við Netflix, Facebook, Google og fleiri af stærstu fyrirtækjum jarðarkringlunnar heilbrigt og spennandi aðhald fyrir Símann. „Alþjóðleg samkeppni tryggir að við getum aldrei slakað á í að keppa um hylli fólks. Að sumu leyti eigum við líka jákvætt samlífi með þessum stórveldum, til hliðar við hið beina reipitog við þá. Þjónusta þeirra er veitt yfir okkar grunnvörur; internet- og farsímakerfi.“

Þurfum að veita lausnir

Orri bendir á margt hafi breyst þeim rúma áratug sem liðinn er frá því að Síminn var ríkisfyrirtæki. Áherslan sé á að sjá fyrir þarfir viðskiptavinarins. „Við báðum Steve Jobs ekki um iPhone en hann reyndist ævintýralega sannspár þegar hann kynnti tækið á markað. Hann breytti heiminum það hratt að nú fer enginn yfir 10 ára að aldri út úr húsi án snjallsíma. Kannski ekki endilega með tæki frá hans fyrirtæki, en með svipaða græju.“

Orri segir stöðuna svipaða og þegar við veikjumst og biðjum lækninn um sjúkdómsgreiningu. „Hlutverk hans er að finna út uppruna vandamálanna og svarið við þeim. Það sama á við um okkur, sem fyrirtæki sem vill eiga trúnaðarsamband við viðskiptavininn. Við þurfum að uppgötva, greina og veita bestu lausnirnar. Jafnvel áður en viðskiptavinurinn veit hvers hann þarfnast.“

Nálægð við fólkið skiptir máli

Í dag er markmið Símans upplifun. Framúrskarandi þjónusta sem viðskiptavinurinn mælir með við aðra. „Markmiðið er að veita áreynslulausa upplifun í gegnum allt ferli fólks í dagsins önn. Að veita öryggi og vera nálægt fólkinu sem við sinnum. Við viljum bjóða upp á afþreyingu í dag, öryggi í kvöld og upplýsingar á morgun. Kjarninn í persónuleika fyrirtækisins er að vera manneskjan sem þú fermdist með, sem þú treystir og sem fer ekki, hvað sem á dynur,“ segir Orri.

Síminn er enn stærsta fjarskiptafyrirtækið á markaðnum, þrátt fyrir myndarlega samkeppni síðustu tvo áratugi. Nú undanfarin ár hafa alþjóðleg fyrirtæki sem veita þjónustu um allan heim stigið inn á sviðið líka. Orri segir að hefðbundnar vörur fjarskiptafélaga hafi verið að lækka í verði, þó svo eftirspurnin eftir því að vera „tengdur“ sé að nálgast að verða frumþörf, eins og vatn og súrefni. Síminn hafi því leitað á ný mið.

„Til dæmis höfum við gengið markvisst inn á svið afþreyingar, gerð íslensks efnis, inn á svið greiðslutækni og inn í gagnavistun. Stærsta aðgreiningin á þó að felast í að veita bestu þjónustuna.“

Velja vaxtarsprota

Mér leikur forvitni á að vita hvað hann á við með greiðslutækni?

„Fjármálaheimurinn er að breytast hratt og snögglega – rétt eins og fjarskiptaheimurinn undirgekkst miklar breytingar í lagalegu umhverfi sínu í kringum aldamót.“

Orri segir að nýsköpun í fjártækni þýði að fólk verði með greiðslutækin sín og næstum líf sitt í símanum. „Fyrst skilurðu veskið eftir heima. Það er einfalt, öll kortin þín verða í „veskinu“ í símanum. Hitt er stærra, þegar öll þín vild og punktar og bónusar fara að dúkka upp sjálfkrafa, bara af því að þú notar símtæki þitt sem greiðslutæki. Þegar þú svo hefur ekki mætt í einhvern tíma þangað sem þú ert vön eða vanur að versla – þá færðu upplýsingar um að þín bíði afsláttur á vanabundnum stað. Eða að það kemur sérsniðið tilboð á þig – bara þig – frá staðnum sem þú vissir ekki að væri til en er handan við hornið sem þú ert staddur við þá stundina. Snjalltækin eru að verða enn snjallari, þegar þau tengjast þjónustuveitum og smásölum, sem vilja keppa um að sinna fólki sem best. En tæki eru tæki. Aðalmálið er að okkur fólkinu líði sæmilega snjöllu og líði vel með tæknina við höndina.“

elinros@mbl.is

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK