Fjárfesting í íbúðarhúsnæði kæmi til greina

Helgi Gunnarsson, forstjóri Regins
Helgi Gunnarsson, forstjóri Regins mbl.is/​Hari

Fasteignafélagið Reginn er ungt félag en rataði snemma á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Félagið hefur vaxið hratt og reksturinn gengið vel allt frá stofnun þess árið 2009 en í dag á Reginn samtals 120 fasteignir og hefur rösklega 322.000 fermetra í útleigu.

„Reginn verður til í kjölfar hrunsins og var félagið stofnað til að halda utan um fasteignir og fasteignafélög sem Landsbankinn yfirtók á árunum eftir hrun,“ segir Helgi S. Gunnarsson, sem hefur verið forstjóri Regins frá upphafi. „Landsbankinn ákvað síðan að selja félagið í heild sinni með skráningu þess á markaði árið 2012. Í framhaldi af skráningu þá varð félagið mjög virkt á fasteignamarkaði, félagið seldi og keypti eignir og stækkaði með samrunum, en bjó að vel samsettu safni fasteigna þegar félagið var skráð. Vöxturinn hefur haldið áfram síðan þá og er eignasafnið núna tæplega 96 milljarða króna virði en var metið á 26 milljarða við skráningu.“

Vinna samkvæmt skýrri stefnu

Helgi skrifar árangurinn m.a. á það að Reginn hefur ætíð starfað samkvæmt skýrri langtímasýn sem stýrir bæði rekstrarviðhorfum sem og fjárfestingum. Er útleiguhlutfallið núna í kringum 95% og hefur jafnvel verið hærra en það á köflum: „Afkoman hefur stöðugt farið batnandi og allar kennitölur styrkjast ár frá ári. Rekstrarkostnaður hefur verið á niðurleið, nýting fasteigna á uppleið og félagið að eflast mikið fjárhagslega á sama tíma og það hefur vaxið gífurlega.“

Stefna Regins er að eignasafnið sé þannig samsett að verslunarhúsnæði myndi þriðjung, skrifstofuhúsnæði þriðjung og loks að þriðjungur eigna sé húsnæði af öðrum toga s.s. fyrir hótelrekstur, opinbera geirann eða grófari atvinnustarfsemi. Segir Helgi að Reginn hafi m.a. átt góðu gengi að fagna í útboðum hins opinbera og eru rúmlega 20% af leigutekjum félagsins tryggð af opinberum aðilum.

„Með því að stækka með samrunum höfum við getað vaxið á sama tíma og við aukum við eigið fé og kaupum fleiri eignir. Reginn hefur unnið jafnt og þétt að því að bæta eignasafnið, bæði með kaupum og sölu, þannig voru fasteignir fyrir um einn milljarð króna seldar á síðasta ári. Samhliða höfum við slípað til innri verkferla okkar, aukið afköst og gæði, og t.d. höfum við náð mjög góðum árangri við alla okkar fjármálaferla sem og við tekjuöflun, s.s. útleiguferla.“

Veðja á bjarta framtíð miðborgarinnar

Ein nýjasta viðbótin við eignasafnið er verslunar- og þjónustuhúsnæði á Hafnartorgi, það er á nýja miðbæjarsvæðinu á besta stað í hjarta Reykjavíkur. Fyrir á Reginn Smáralind og segir Helgi að með kaupunum á Hafnartorgi sé félagið að veðja á möguleika miðbæjarins til að styrkjast enn frekar sem miðstöð verslunar og þjónustu. „Við tilkynntum á dögunum um samning við H&M sem mun leigja af okkur verslunarhúsnæði á Hafnartorgi og erum við núna að vinna að því að raða verslunum og veitingastöðum í þessar eignir.“

mbl.is/​Hari

Ljóst er að mikil tækifæri eru á svæðinu, og ekki er sama hvaða fyrirtæki koma sér fyrir á Hafnartorginu. Til að þar verði blómlegt svæði þarf blandan að vera góð og fyrirtækin þurfa að höfða til almennings sem og annarra markhópa sem er þar að finna, svo sem ferðamanna. „Við megum ekki leyfa okkur það að reikna með að Hafnartorg muni slá í gegn á fyrsta degi og því er mikilvægt að fá inn aðila sem hafa þolinmæði til að vera með rekstur á svæði sem gæti tekið einhvern tíma að byggja upp.“

Helgi á samt ekki von á öðru en að Hafnartorg muni dafna vel. „Verslun er að þjappast mikið saman á punktum eins og Smáralind, Kringlu og Miðbænum. Þá felast mikil sóknarfæri í fjölgun ferðamanna, sem leita einkum í miðborgina.“

Stór hluti í gjöld og skatta

Þegar hann er spurður um erfiðleika í rekstrarumhverfinu nefnir Helgi að hækkun fasteignagjalda hafi reynst félögum eins og Regin byrði. „Um gríðarlega háar fjárhæðir er að ræða og eru fasteignagjöld langstærsti útgjaldaliður fasteignafélaga, en um 15% af tekjum okkar fara beint í að greiða fasteignagjöld og fasteignaskatta.“

Á móti kemur að efnahagslífið er sterkt og rekstrarforsendurnar góðar að flestu leyti: „Vöxturinn er mikill á öllum sviðum og skuldsetning félaga og einstaklinga ekki að aukast. Á sama tíma eru vanskil í sögulegu lágmarki.“

Að svo stöddu mun Reginn halda áfram á sömu braut en Helgi segir ekki útilokað að félagið muni horfa til annarra flokka fasteigna í framtíðinni og mögulega fjárfesta í íbúðarhúsnæði.

„Ég trúi því að eitthvað af skráðu fasteignafélögunum fari á einhverjum tíma út í íbúðarhúsnæðismarkaðinn, en get ekki sagt til um hvort það verður eftir tvö ár eða tíu. Mörg fordæmi eru frá Skandinavíu þar sem svipuð fasteignafélög hafa íbúðarhúsnæðiseiningu sem hluta af sinni samstæðu. Við erum stöðugt að skoða ný tækifæri og nýja möguleika, og það er hluti af okkar starfi að vera vakandi yfir nýjum tækifærum. Það þarf hins vegar að skoða þau af mikilli nákvæmni og greina tækifæri og ógnanir vel.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK