Margar leikjavefsíður hafa gefist upp

Inga María Guðmundsóttir, stofnandi leikjafyrirtækisins Dress Up Games.
Inga María Guðmundsóttir, stofnandi leikjafyrirtækisins Dress Up Games. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Inga María Guðmundsóttir er stofnandi leikjafyrirtækisins Dress Up Games sem er á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Hún minnist þess þegar hún setti fyrstu útgáfuna af Dress Up Games á vefinn. Ræðir rekstrarumhverfi tölvuleiksins í dag og nýtt verkefni sem hún er að þróa um þessar mundir.

„Það var árið 1998. Bróðurdóttir mín var á þessum tíma sjö ára og hafði mikinn áhuga á dress up-leikjum og ég var búin að finna nokkra dress up-leiki fyrir okkur til að spila saman. Þegar ég hafði fundið nokkuð marga slíka leiki, þá komst ég að því að það var enginn einn vefur sem hélt utan um alla leikina svo ég greip tækifærið,“ segir Inga María um upphaf Dress Up Games og heldur áfram: „Ég átti svo sannarlega ekki átt von á því að þetta yrði starfið mitt, þá sér í lagi þar sem ég var í þessu einvörðungu vegna áhuga fyrstu árin,“ segir hún.

Hagnaður að minnka

Inga María sem er bókasafnsfræðingur að mennt og búsett á Ísafirði segir að síðustu ár hafi einkennst af fækkun í heimsóknum og minnkandi tekjum. „Árið 2015 var hagnaðurinn 38 milljónir íslenskra króna og fimm milljónir íslenskra króna árið 2016.“

Ástæðuna fyrir þessu segir Inga María að yngri krakkar séu mikið til farin að nota spjaldtölvur og síma. „Þau tæki spila ekki flash-leiki, en það leikjaformat hefur verið algengast meðal vefleikja sem eru spilaðir í netvöfrum.

Ég byrjaði árið 2016 að framleiða html5-leiki sem er hægt að spila á símum og spjaldtölvum, en það hefur verið erfitt að fá notendur til að nota vafra til að spila leiki í símatækjum, snjallforritin virðast vera ráðandi.“

Snjallforrit áhugaverður valmöguleiki

Inga María segir að margar leikjavefsíður hafi gefist upp á síðustu árum, en sumir séu á sama stað og hún að reyna að koma html5-leikjum á framfæri. „Aðrir hafa alfarið snúið sér að því að framleiða snjallforrit.“

Að mati Ingu Maríu eru sjálfstæðir minni leikjaframleiðendur sem eru í iðnaðinum af áhuga og ástríðu að framleiða bestu leikina. „Það voru slæmar fréttir þegar Adobe tilkynnti á árinu að Flash yrði ekki í boði eftir árið 2020. Við það hættu margir að framleiða leiki. Þeir sem eru ekki tilbúnir að tileinka sér nýja tækni, einstaklingar sem eru í þessu fyrst og síðast til að teikna leikina, en ekki vegna forritunaráhuga.“

Inga María hefur frá fyrstu tíð birt leiki frá öðrum leikjaframleiðendum á sinni síðu og segist ekki muna eftir annarri eins leikjaþurrð og verið hefur undanfarnar vikur. „Það eru örfáir vefir að framleiða nýja dress up-leiki, og enn færri sem framleiða leiki á html5-formati.“

Á þessu ári stefnir Inga María að því að framleiða a.m.k. eitt snjallforrit. „Við höfum hafið vinnuna við þetta verkefni og reikna ég með að snjallforritið verði tilbúið í sumar eða haust.“

Inga María segir mikla óvissu um framtíðina og að í raun viti enginn hvernig hlutirnir muni þróast. „En það þýðir ekkert annað en að vera í rannsókn og þróun með verkefnið og prófa sig áfram. Þannig öðlast ég reynsluna og þekkinguna í þessum iðnaði. Ég verð þó að játa að á þessari stundu er algjörlega óljóst fyrir mér hvort leikir eigi framtíð í vöfrum eða hvort þeir muni færast alfarið yfir í snjallforrit,“ segir hún að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK