Happy Campers í útrás í Suður-Afríku

Sverrir Þorsteinsson og Herdís Jónsdóttir hafa auga fyrir smáatriðum í …
Sverrir Þorsteinsson og Herdís Jónsdóttir hafa auga fyrir smáatriðum í bílahönnun. mbl.is/Golli

Hjónin Sverrir Þorsteinsson og Herdís Jónsdóttir stofnuðu Happy Campers árið 2009. Þau fóru hægt í sakirnar fyrst um sinn í rekstrinum, keyptu fimm gamla bíla til að byrja með og hönnuðu og smíðuðu allar breytingar á bílunum sjálf. Viðskiptavinirnir hafa tekið rækilega við sér enda hugnast mörgum sá kostur ferðabílanna að vera ekki einasta farkostur á ferð þeirra um landið heldur getur fólk eldað í þeim mat og svo sofið í þeim á nóttunni. Fyrirtækið er nú í hópi framúrskarandi fyrirtækja í fyrsta sinn – hverju skyldu þau hjónin helst þakka það?

„Við þökkum því helst að hafa verið vakin og sofin yfir rekstrinum frá því að við opnuðum fyrirtækið 2009 ásamt því að hafa haft með okkur gott starfsfólk alla tíð,“ segir Sverrir. „Árið 2017 var okkur gott ár, næg eftirspurn og ánægðir viðskiptavinir.“

Áhersla á persónulega þjónustu

Allnokkur samkeppni er hér á landi á sviði ferðabíla af því taginu sem Happy Campers hafa til leigu en Herdís segist ekki í neinum vafa um það hvar sérstaða þeirra liggur.

„Okkar sérstaða liggur helst í einfaldleikanum, mjög góðri og persónulegri þjónustu við viðskiptavininn og síðast en ekki síst, þeirri heildarímynd sem við bjóðum upp á sem viðskiptavininum líkar vel við.“ Hún bætir því við að viðskiptamannahópurinn hafi stækkað á hverju ári og nam aukningin um 30% á ári. „Mikilvægustu markaðssvæðin okkar eru Norður-Ameríka og Evrópa, en að sjálfsögðu fáum við líka fólk alls staðar að úr heiminum.“

Öðru máli gegnir um heimamenn hvað þennan ferðamáta varðar og Herdís brosir út í annað þegar skiptinguna milli innlendra og erlendra viðskiptavina ber á góma.

„Íslendingar eru sjaldséðir hrafnar hjá okkur og eru því 99% viðskiptamanna okkar útlendingar.“

Það hefur lengi verið keppikefli ferðaþjónustunnar hér á landi að gera Ísland að heilsárs-áfangastað. Sverrir segir ferðabílana frá Happy Campers fullkomlega í stakk búna til ferðalaga um Ísland allt árið um kring.

„Við erum með þrjú tímabil í gangi og eru vor- og haustkúnnar alltaf að verða fleiri og fleiri, þar sem það þykir eftirsóknarvert að heimsækja Ísland á jaðartímum. Það er líka fullkomlega raunhæft að „Camperar“ séu valkostur allt árið um kring eins og aðrir bílaleigubílar eða rútur, ef bílarnir eru vel útbúnir og Vegagerðin heldur vegum opnum. Þarna undanskil ég kannski einstaka óveðurstilfelli. Okkar viðskiptavinir fara út vel upplýstir og á vel útbúnum bílum og eru þar að auki með upplýsingar um þau tjaldsvæði sem bjóða gistingu allt árið en þeim fer fjölgandi á hverju ári.“

Stór hluti flotans endurnýjaður

Það er því ekki að undra að það er hugur í þeim hjónum í upphafi ársins 2018 að loknu góðu ári í rekstrinum.

„Á næsta ári verðum við með svipaðan bílaflota og árið 2017 en höfum þó endurnýjað góðan part af flotanum, selt gamla bíla og skipt þeim út fyrir nýja,“ útskýrir Herdís. „Við höfum alltaf lagt mjög mikla áherslu á að veita viðskiptavinum okkar mjög góðar upplýsingar varðandi allt sem tengist því að ferðast um Ísland. Við höfum því betrumbætt upplýsingahornið okkar þar sem við sýnum og kennum þau atriði sem mikilvægust eru, og höfum meðal annars bætt við gagnvirkum stórum snertiskjá þar sem við komum þessum skilaboðum vel til skila. Þar má telja upplýsingar um færð og veður, vegi og vegleysur, tjaldsvæði og verslanir, umgengni um íslenska náttúru og margt fleira.“

Sverrir tekur undir þetta og bætir við:

„Það voru tímamót hjá okkur á síðasta ári þegar Happy Campers opnaði útibú í Höfðaborg í Suður-Afríku. Það eru spennandi tímar þar framundan hjá okkur en um 10 milljónir ferðamanna heimsækja landið árlega fyrir utan heimamenn þar í landi sem eru duglegir að notast við þennan ferðamáta.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK