Ætla að brjóta blað í sögu Nasdaq First North

Eyþór Bender.
Eyþór Bender. mbl.is/Valli

Fyrirtæki Eyþórs Bender, UNYQ, er að hans sögn leiðandi í heiminum í gerð þrívíddarprentaðra stoðtækja. Félagið, sem var stofnað árið 2014, selur nú vörur sínar til 50 landa og stefnir á skráningu á Nasdaq First North-markaðinn í Stokkhólmi í byrjun 2019, fyrst bandarískra fyrirtækja. 40 starfa í dag hjá UNYQ á þremur starfsstöðvum fyrirtækisins.

Eyþór Bender hefur lengi verið viðloðandi stoðtækjabransann, eða allt frá því að hann var ráðinn til að sjá um markaðsmál stoðtækjafyrirtækisins Össurar árið 1995, og gerðist síðar yfirmaður Össurar í Norður Ameríku.

Áður en hann kom til Össurar starfaði hann um sex ára skeið hjá Hewlett Packard-tölvurisanum í Þýskalandi. Hann segir að sú ákvörðun, að segja upp starfi sínu þar og fara til Íslands, hafi verið stórt skref á sínum tíma, en að mörgu leyti stórskrýtin ákvörðun, enda Hewlett Packard, HP, enn mjög heitt á þessum tíma. „Báðir stofnendurnir, þeir Hewlett og Packard, voru enn í stjórn fyrirtækisins og mikið að gerast hjá félaginu. En það var einhver frumkvöðlahugur í mér á þessum tíma, auk þess sem ég vildi fara heim svo börnin myndu ekki alfarið alast upp í Þýskalandi. Fyrir mér var Össur á þessum tíma bara fyrirtæki sem var að gera spennandi hluti í tækni, og það var ekki um auðugan garð að gresja í þeim efnum á Íslandi á þessum tíma. Ég vildi geta notað þá þekkingu sem ég hafði aflað mér úti í Þýskalandi,“ segir Eyþór í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann bætir við að tenging tækninnar við líkamann hafi honum einnig þótt mjög áhugaverð hjá Össuri. „Mér fannst mjög spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í að byggja upp fyrsta almennilega tæknifyrirtækið á Íslandi. Vegferð mín hjá Össuri reyndist farsæl, og var mér mikill skóli.“

Vann mikið með tæknimönnum

Spurður um bakgrunn hans sjálfs í tækni, segist Eyþór ekki vera neinn sérstakur tæknimaður. Hann hafi verið í markaðs- og sölumálum hjá HP og haldið því áfram hjá Össuri. „Ég hafði aftur á móti unnið mikið með tæknimönnum. Ég hef töluverða reynslu í að vita hvenær maður á að beina þeim nær eftirspurninni á markaðnum,“ segir Eyþór.

Hrunárið 2008 hættir Eyþór hjá Össuri, en hann segir að þá hafi verið orðið ljóst að ekki yrði sami hraðinn í útþenslu félagsins, og ekki sama „fjörið“ og á árunum þar á undan. „Eftir að okkur hjá Össuri tókst að láta Oscar Pistorius [spretthlauparann] hlaupa á Ólympíuleikunum á gervifótum frá okkur, og við vorum farin að nota mikið vélmennatækni til að hjálpa fólki að ganga, þá fannst mér eðlilegt næsta skref að hjálpa lömuðu fólki að stíga upp úr hjólastól.“

Þarna á Eyþór við næsta skrefið á ferlinum, þegar hann tók að sér að leiða tæknifyrirtækið Ekso Bionics í Silicon Valley í San Francisco. „Mér fannst það verkefni álíka spennandi og að koma til starfa hjá Össuri 1995. Þetta var árið 2010. Mér fannst skrýtið, miðað við hvað San Francisco var og er mikill suðupottur í tækni og framförum, að þar væri ekkert fyrirtæki á stoðtækjasviðinu. Ég hugsaði sem svo að þetta hlyti að vera mikið tækifæri, og þannig byrjaði þessi næsti kafli hjá mér. Þarna slóst ég í lið með fólki sem vantaði liðsinni við markaðssetningu á svona vörum. Fyrirtækið hafði náð samningum við þróunararm bandaríska hergagnaiðnaðarins, DARPA, og hergagnaframleiðandann Lockhead Martin, einkum til að fá þá til að fjármagna starfsemina. Þegar ég kom til þeirra voru þeir búnir að hanna svokallaðan gengil, eins konar ytri beinagrind, sem hjálpaði fólki að halda á hlutum á bakinu og koma í veg fyrir bakmeiðsli. Þannig byrjaði þetta, en fyrsta útgáfan var hönnuð fyrir hermenn. Það sem ég var aftur á móti mjög spenntur fyrir var að þeir voru að spá í að gera svipaða hluti fyrir lamað fólk, og vildu fá mína hjálp við það.“

Hann segir að sér hafi fundist þessi tenging við gerð ofur-hermanna vera skemmtileg. Svo fór að árið 2011 var fyrstu vörunni hleypt af stokkunum með TED-fyrirlestri. Varan var síðan valin vara ársins af TIME-tímaritinu bandaríska. „Þetta var svakalegt ævintýri, og mjög skemmtilegt.“

Eyþór segir að þegar frá leið hafi sér þótt tengingin við ofurhermanninn minna spennandi. „Kannski er það upphafið að einhverju sem þú vilt ekkert endilega tengjast.“ Blaðamaður minnist á Tom Cruise-kvikmyndina Edge of Tomorrow þar sem hermenn framtíðar eru „íklæddir“ einhvers konar vélgrind. Eyþór kinkar kolli. „Það eru stór verkefni í gangi hvað varðar gerð svona ofurhermanna. Eins og öll risa-tækniverkefni í heiminum, verkefni eins og þróun GPS-kerfisins og þróun internetsins, þá eru öll þessi tækniundur komin fram með stuðningi hernaðaryfirvalda í Bandaríkjunum. Svona verkefni eru of stór fyrir einhverja einkafjárfesta. Þarna kemur til langur og mjög kostnaðarsamur þróunarferill. Hins vegar er mjög gaman að fá að fylgjast með þessu, því maður fær svo góða innsýn inn í framtíðina.“

Nánari umfjöllun er að finna í Viðskiptamogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK