Meiri verðhækkun á landsbyggðinni

Á Selfossi.
Á Selfossi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Á fyrstu átta mánuðum ársins fjölgaði íbúðaviðskiptum á almennum markaði um 8% á höfuðborgarsvæðinu og um samtals 3% á landsvísu miðað við sama tíma í fyrra. Íbúðaverð á  höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 4,1% undanfarið ár samkvæmt vísitölu íbúðaverðs sem gefin er út af Þjóðskrá Íslands og um 3,2% ef miðað er við vísitölu paraðra íbúðaviðskipta sem er reiknuð af hagdeild Íbúðalánasjóðs. Íbúðaverð hækkar um þessar mundir meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu en uppsöfnuð hækkun frá árinu 2012 er þó enn sem komið er meiri á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni.

Í ágúst var árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 3,2% ef miðað er við vísitölu paraðra íbúðaviðskipta sem reiknuð er af hagdeild Íbúðalánasjóðs.

Eftir að hafa hækkað mikið á fyrri hluta árs 2017 sveiflaðist vísitalan nokkuð í kringum síðustu áramót og var hún sú sama í febrúar síðastliðnum og í ágúst 2017. Á síðustu sex mánuðum, eða síðan í febrúar, hefur vísitalan hins vegar hækkað um 3,2%.

Verðhækkunin 11,4%

Frá upphafi þessa árs hefur íbúðaverð þó þróast með áþekkum hætti á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum. Annars staðar á landsbyggðinni hefur íbúðaverð hækkað enn meira undanfarið ár eða um 11,4%. Fyrstu árin eftir kreppuna hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu talsvert meira en á landsbyggðinni.

Innan höfuðborgarsvæðisins hækkaði íbúðaverð meira miðsvæðis, það er í Reykjavík vestan Elliðaáa, en í úthverfum. Á árunum 2016 og 2017 byrjaði þetta að breytast og frá og með ágúst í fyrra hefur 12 mánaða hækkun íbúðaverðs verið minnst í Reykjavík vestan Elliðaáa af þeim markaðssvæðum sem hér hafa verið nefnd miðað við vísitölur paraðra íbúðaviðskipta.

Verðþróunin í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar er sérstaklega áberandi en í júní 2017 mældist árshækkun íbúðaverðs þar 33% miðað við þriggja mánaða meðaltal vísitölu paraðra íbúðaviðskipta. Um þessar mundir er hækkun íbúðaverðs hins vegar mest annars staðar á landsbyggðinni.

Vísitala ásetts verðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu, sem reiknuð er af hagdeild, hækkaði um 1,5% í ágúst. Það er mesta hækkun vísitölunnar milli mánaða frá því í maí í fyrra. Árshækkun vísitölu ásetts verðs mælist nú 5,8% og ásett verð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur því hækkað nokkuð meira en söluverð þeirra undanfarið ár, hvort sem miðað er við vísitölu paraðra íbúðaviðskipta eða vísitölu íbúðaverðs.

Í fyrsta skipti síðan í desember í fyrra eykst 12 mánaða hækkunartaktur ásetts verðs milli mánaða. Í ágúst voru 9% íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði en það er lægra hlutfall en í júlí. Frá upphafi árs 2013 hefur hlutfall viðskipta yfir ásettu verði að meðaltali verið 11%.

Hlutfall viðskipta á ásettu verði í ágúst var 15% sem er í takt við meðaltal tímabilsins síðan 2013. Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu í ágúst mældist 67 dagar sem er svipað og mánuðina þar á undan og með minnsta móti í samanburði við undanfarin ár, segir í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK