Tekjur Isavia jukust um 10%

Tekjur Isavia námu 41,8 milljörðum króna á síðasta ári.
Tekjur Isavia námu 41,8 milljörðum króna á síðasta ári. mbl.is/Eggert

Tekjur Isavia námu 41,8 milljörðum króna á síðasta ári sem er 10% aukning á milli ára og er stærsti hluti tekna tilkominn vegna flugvallaþjónustu og vörusölu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia eftir að ársreikningur félagsins fyrir árið 2018 var samþykktur á aðalfundi í dag.

Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 12% milli ára, eða úr 8,8 milljónum í rúmlega 9,8 milljónir. Flugvélum sem fóru um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið fjölgaði um rúm 6% og innanlandsfarþegum fækkaði um 4,5%.

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 11,3 milljörðum króna og jókst um tæp 15% á milli ára. Heildarafkoma nam 4,3 milljörðum króna og hækkaði um rúmar 300 milljónir króna frá fyrra ári, eða 8%. Arðsemi eiginfjár var 12,9%.

Heildareignir samstæðunnar námu 79,8 milljörðum króna í árslok 2018 og jukust um 7,3 milljarða króna milli ára. Þar af eru 57,2 milljarðar króna tilkomnir vegna varanlegra rekstrarfjármuna.

Staða eigin fjár hækkaði um rúma 4,3 milljarða króna milli ára sem skilaði 44,2% eiginfjárhlutfalli sem er 1,5% hækkun frá síðasta ári.

Frá aðalfundinum.
Frá aðalfundinum. Ljósmynd/Aðsend

Framkvæmdir hefjast 2021

„Sumarið 2018 flugu 30 flugfélög frá Keflavíkurflugvelli til rúmlega 100 áfangastaða og 10 félög störfuðu árið um kring. Keflavíkurflugvöllur er rekinn í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og eigi hann að halda sæti sínu og taka við fjölgun farþega er enn frekari uppbygging nauðsynleg,“ segir Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Isavia, í tilkynningunni, en hann lét af embætti stjórnarformanns á aðalfundinum. 

Þar nefnir hann að unnið sé að því að skipuleggja og áfangaskipta framkvæmdum miðað við áætlaða fjölgun farþega og hafa uppbyggingaráform verið sett í umhverfismat. Vinna er hafin við hönnun á endurbættri tengibyggingu og er stefnt á að hún verði komin að fullu í notkun 2023. Einnig er hafinn undirbúningur uppbyggingaáætlunar með útboði á verkefnisumsjón sem áætlað er að afgreitt verði í október á þessu ári. Ferlið markar upphafið að nýrri farþegaálmu, austurálmu, og flugstöðvarbyggingu. Áformað er að framkvæmdir hefjist árið 2021 og gætu þá fyrstu áfangar verið teknir í notkun á árunum 2024 og 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK