Vanskil jukust um milljarð á 6 mánuðum

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert

Viðskiptakröfur Isavia á hendur viðskiptavinum sínum stóðu í tæpum 5,9 milljörðum króna um síðustu áramót. Höfðu þær aukist um ríflega 2 milljarða króna frá áramótum 2017. Þetta má lesa úr nýbirtum ársreikningi félagsins.

Í ársreikningi félagsins eru viðskiptakröfurnar sundurliðaðar eftir því hvort þær séu ógjaldfallnar eða komnar yfir gjalddaga. Samkvæmt þeirri sundurliðun hafa ógjaldfallnar kröfur aukist milli ára um 1,2 milljarða króna og stóðu þær í 3,2 milljörðum í árslok 2018. Þá höfðu kröfur sem komnar voru fram yfir gjalddaga sem nam 1-90 dögum aukist um 159 milljónir króna og stóðu þær í tæpum 1,4 milljörðum króna. Hins vegar jukust kröfur sem voru komnar 91-180 daga fram yfir gjalddaga mun meira eða um ríflega milljarð króna. Námu þær 1,1 milljarði tæpum í árslok 2018 en höfðu aðeins verið 74 milljónir við árslok 2017.

Gjaldfallnar viðskiptakröfur aukast gríðarlega

Séu gjaldfallnar viðskiptakröfur félagsins teknar saman námu þær 2,6 milljörðum í árslok 2018 en höfðu numið 1,7 milljörðum króna í árslok 2017. Miðað við árshlutareikning Isavia fyrir fyrri hluta ársins 2018 virðast gjaldfallnar viðskiptakröfur hafa aukist um ríflega milljarð, fóru þær úr 1,6 milljörðum tæpum um mitt ár 2018 í rúma 2,6 milljarða í lok sama árs.

Isavia hefur neitað að svara spurningum mbl.is og Morgunblaðsins um hvaða viðskiptavinir Isavia skulda félaginu umrædda fjármuni. Í september síðastliðnum greindi Morgunblaðið hins vegar frá því að skuld WOW air vegna lendingargjalda á Keflavíkurflugvelli næmi um 2 milljörðum króna.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir