Marel skráð í Amsterdam

Árni Oddur slær í gongið og opnar fyrir viðskipti Marel …
Árni Oddur slær í gongið og opnar fyrir viðskipti Marel í Euronext-kauphöllinni.

Hlutabréf Marel voru tekin til viðskipta í Euronext-kauphöllinni í Amsterdam í morgun við hátíðlega athöfn í Hollandi en opnað var fyrir viðskipti í kauphöllinni kl. 9:00 í morgun. Um er að ræða fyrstu skráninguna í Euronext-kauphöllina á þessu ári. Sé miðað við markaðsverðmæti telst Marel til millistórra fyrirtækja á markaðnum í Amsterdam en 132 fyrirtæki er nú skráð á þann markað.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, sló í gong, og ræsti þar með fyrsta viðskiptadag Marel í þessari elstu kauphöll í heimi sem stofnuð var árið 1602 af hollenska Austur-Indíafélaginu. Marel verður nú skráð í Kauphöll Íslands samhliða skráningunni í Amsterdam. 

Verð á hlut í útboðinu nam 3,7 evrum og nemur heildarfjárhæð útboðsins 336,36 millljónum evra. Sé byggt á því nemur heildarmarkaðsvirði Marel um 2,82 milljörðum evra.

Verð í fyrstu viðskiptum nam 3,85 evrum, skömmu eftir opnun markaðar.

Kauphöllin í Amsterdam var vel skreytt með vörumerki Marel.
Kauphöllin í Amsterdam var vel skreytt með vörumerki Marel.

Eftir að viðskipti hófust tóku við ræðuhöld en dagskráin hófst kl. 8 í morgun.

Samhliða skráningu Marel í Euronext-kauphöllina fór fyrirtækið í hlutafjárúttboð en samtals voru boðnir til sölu 100 þúsund nýir hlutir sem samsvara 15% af útgefnu hlutafé. Þar af voru 90,9 millljónir nýrra hluta og allt að 9.090.909 hlutir voru gefnir út í tengslum við hefðbundinn valrétt sem mættu þeirri umframeftirspurn sem var eftir bréfum félagsins. 

Í tilkynningu Marel til Kauphallarinnar segir að margföld umframeftirspurn hafi verið á útboðsgenginu. Bæði frá fagfjárfestum og almennum fjárfestum.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. mbl.is/Árni Sæberg

„Í dag er stór stund í sögu félagsins nú þegar skráning í Euronext-kauphöllina í Amsterdam er í höfn, til viðbótar við skráninguna á Íslandi. Við erum afar stolt af þeim mikla áhuga sem hlutabréfaútboðið fékk, bæði frá einstaklingum og fagfjárfestum hér heima og erlendis. Margföld eftirspurn var í útboðinu sem dreifðist vel til fjárfesta í Bretlandi, Bandaríkjunum, Íslandi, Hollandi og fleiri landa. Skráningin í Euronext-kauphöllina mun styðja við næstu skref í framþróun félagsins og styðja við metnaðarfull vaxtarmarkmið. Sýn okkar er veröld þar sem hágæðamatvæli eru framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt,“ sagði Árni Oddur Þórðarson í tilkynningu frá Marel.

„Við erum bæði stolt og ánægð með þann mikla áhuga sem útboðið hefur fengið. Margföld eftirspurn frá bæði einstaklingum og fagfjárfestum er góður vitnisburður um stöndugan rekstur félagsins og þau miklu vaxtartækifæri sem fram undan eru í matvinnsluiðnaði. Aukin breidd í hluthafahópnum og aðkoma stórra alþjóðlegra hornsteinsfjárfesta eru kærkomin viðbót við þann öfluga hóp hluthafa sem stutt hafa við félagið hingað til. Skráningin í Euronext-kauphöllina í Amsterdam mun styrkja fjárhagsskipan félagsins og veita reynslumiklu stjórnendateymi okkar styrkan grunn til að framfylgja metnaðarfullri vaxtarstefnu okkar,“ sagði Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK