11,1 milljarða hagnaður á fyrri hluta ársins

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir grunnrekstur bankans traustan og …
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir grunnrekstur bankans traustan og að hann skili góðri arðsemi. Aðhald í rekstri bankans eigi stóran þátt í að rekstrarkostnaður standi í stað milli tímabila.

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,1 milljarð króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2019 saman­borið við 11,6 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu Landsbankans. 

Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 9,1% á árs­grundvelli, samanborið við 9,9% á sama tímabili 2018. Laun og launatengd gjöld lækkuðu um 2% á milli tímabila.

„Hreinar vaxtatekjur voru 20,5 milljarðar króna og hækkuðu um 5% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 4,1 milljarði króna samanborið við 3,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Virðisrýrnun útlána nam 2,4 milljörðum króna á tímabilinu, samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 1,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Vanskilahlutfall var 0,9% á fyrri helmingi ársins 2019 samanborið við 0,6% á sama tímabili 2018,“ segir í tilkynningunni.

Rekstrartekjur bankans á fyrri helmingi ársins námu 27,9 milljörðum króna samanborið við 29,0 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 5,7 milljörðum króna samanborið við 3,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,4% á fyrri helmingi ársins 2019 en var 2,7% á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarkostnaður stendur í stað milli tímabila

Rekstrarkostnaður bankans nam 12,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2019 og stendur hann í stað á milli tímabila. Þar af var launakostnaður 7,4 milljarðar króna samanborið við 7,5 milljarða króna á sama tímabili árið 2018. Annar rekstrarkostnaður var 4,9 milljarðar króna samanborið við 4,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaðarhlutfall á fyrri helmingi ársins 2019 var 40,4%, samanborið við 44,5% á sama tímabili árið 2018.

Útlán jukust um 6,2% frá áramótum, eða um 66 milljarða króna, bæði til einstakling­a og fyrirtækja. Innlán hjá Landsbankanum jukust um tæplega 5 milljarða frá áramótum.

Eigið fé Landsbankans var 240,6 milljarðar króna þann 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 23,7%.

Aðhald í rekstri eigi þátt í lægri kostnaði

Í tilkynningunni er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að uppgjör fyrir fyrrihluta ársins sé gott. Tekjur bankans hafi verið hærri og kostnaður lægri en ráðgert hafi verið. Ljóst sé að grunnreksturinn sé traustur og skili góðri arðsemi.  

„Aðhald í rekstri bankans á stóran þátt í að rekstrarkostnaður bankans stendur í stað á milli tímabila. Einnig hefur skilvirkni aukist með hagnýtingu á stafrænni tækni og nýjungar í þjónustu hafa fengið góðar viðtökur hjá viðskiptavinum. Kostnaðarhlutfall bankans á fyrri helmingi ársins var rúmlega 40% sem er lægra en á sama tíma í fyrra og lægra en markmið bankans,“ segir Lilja Björk. Hún segir góðan takt í starfseminni og að það sé kappsmál bankans að bjóða góða og samkeppnishæfa þjónustu.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Hari

„Landsbankinn var fyrstur íslenskra banka að bjóða öllum farsímanotendum upp á greiðslu í gegnum síma. Við vorum einnig fyrsti bankinn til að bjóða upp á aðgang að A2A-greiðslulausn sem er mikilvægt skref í átt að opnu bankakerfi,“ segir hún. 

„Það eru óneitanlega ákveðin vonbrigði að matsfyrirtækið S&P Global Ratings meti horfur nú neikvæðar en að vissu leyti skiljanlegt í því efnahags- og samkeppnisumhverfi sem nú ríkir og S&P vísar til.  Á hinn bóginn verður að líta til þess að bæði S&P og Euromoney líta svo á að Landsbankinn hafi náð bestum rekstrarárangri banka á Íslandi að undanförnu,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK