Samkeppnin hefur færst til Íslands

Albert og Lóa með verðlaunin sem Lindex á Íslandi á …
Albert og Lóa með verðlaunin sem Lindex á Íslandi á stóran þátt í, að mati Lóu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er rosalega mikil viðurkenning fyrir okkur því Lindex á Íslandi hefur átt stóran þátt í þessum umboðshluta hjá Lindex,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, annar umboðsaðila Lindex á Íslandi. 

Lindex hlaut alþjóðleg verðlaun síðastliðinn föstudag fyrir framúrskarandi árangur innan alþjóðlegrar umboðssölu. Verðlaunin voru veitt á ársþingi stærstu og elstu umboðsaðilasamtaka heims, International Franchise Association.

Lóa opnaði Lindex á Íslandi ásamt eiginmanni sínum, Albert Þór Magnússyni, árið 2011. Síðan þá hefur fjöldi alþjóðlegra vörumerkja opnað verslanir á Íslandi, þar á meðal H&M, Monki og Weekday, en Lóa segir að samkeppnin hafi jákvæð áhrif og Íslendingar hafi nú fleiri tækifæri til þess að versla hérlendis en áður. 

Umboðsaðilar og aðrir starfsmenn Lindex með verðlaunin.
Umboðsaðilar og aðrir starfsmenn Lindex með verðlaunin. Ljósmynd/Aðsend

Lóa og Albert reka nú sjö Lindex-verslanir á Íslandi og Lóa segir að á stuttum tíma hafi Lindex orðið mikilvægur hluti af íslenskri verslun. 

„Það er vísbending um það hversu vel hefur gengið að innleiða þetta umboðskerfi inn í Lindex sem er náttúrulega 60 ára gamalt fyrirtæki. Við erum náttúrulega líka með umboð fyrir Danmörku þannig að ég myndi segja að því leytinu til eigi Lindex á Íslandi mikinn þátt í þessum verðlaunum.“

Segir að kauphegðun hafi breyst

Lóa segir að markaðurinn á Íslandi hafi þroskast mjög hratt síðan fyrsta Lindex-verslunin opnaði á íslenskri grundu. 

„Samkeppnisumhverfið hefur breyst mikið. Mörg stór vörumerki hafa komið til landsins og að einhverju leyti hefur koma Lindex sannað það að Ísland sé ákjósanlegur markaður í alþjóðasamhengi. Mér finnst líka að kauphegðunin hafi breyst, fólk er farið að versla miklu meira heima. Fólk er ekki lengur að fara til útlanda endilega að versla. Framboð og verð er orðið svo samkeppnishæft heima.“

Hér má sjá verðlaunin sjálf.
Hér má sjá verðlaunin sjálf. Ljósmynd/Aðsend

Samkeppnin hefur því í raun færst frá útlöndum til Íslands, að mati Lóu, sem segir að sú breyting sé af hinu góða. 

„Við tökum allri samkeppni fagnandi, okkur finnst gott að hafa samkeppnina á jafnréttisgrundvelli. Við viljum bara að fólk geti valið. Samkeppnin er jafnari þegar hún er á sama stað en ekki alltaf erlendis þar sem ytra umhverfið er allt öðruvísi.“

Ljósmynd frá verðlaunaafhendingunni sem fram fór síðastliðinn föstudag.
Ljósmynd frá verðlaunaafhendingunni sem fram fór síðastliðinn föstudag. Ljósmynd/Aðsend

Lindex á leiðinni á Selfoss

Spurð hvort Lindex finni fyrir kólnun í íslensku efnahagskerfi segir Lóa: 

„Það eru náttúrulega áskoranir til staðar. Ísland er sérstakt að því leytinu til að við þurfum að fást við hraðar gengisbreytingar og það eru hæstu laun í heimi á Íslandi. Við mætum þessum áskorunum eins vel og við getum hverju sinni. Aðalatriðið er náttúrulega bara það að við stöndum okkur gagnvart viðskiptavinum.“

Eins og áður segir eru verslanir Lindex á Íslandi sjö talsins og finnast þær víða um land. Þó stefna Lóa og Albert á frekari fjölgun verslana. Tvær verslanir Lindex í Kringlunni fara undir sama þak í haust og verða að einni stórri verslun. 

„Svo ætlum við að opna á Selfossi þegar miðbærinn þar verður tilbúinn og svo er ýmislegt annað í kortunum sem ég get ekki sagt frá eins og er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK