Leggja til að arður verði ekki greiddur út

Stjórn Íslandsbanka hefur lagt til við aðalfund bankans að ekki verði greiddur út 4,2 milljarða króna arður sem stjórnin hafði áður lagt til. Er þetta gert í ljósi óvissu af völdum fordæmalausra aðstæðna á fjármálamörkuðum í tengslum við útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Langtímastefna Íslandsbanka er að greiða 40-50% af hagnaði ársins í arð, en eigandi bankans er íslenska ríkið. Í tilkynningunni segir þó að lagt verði til við aðalfund að stjórn bankans fái heimild til að kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á þessu ári þar sem tillaga um arðgreiðslu af hagnaði kunni að vera lögð fram.

Áður hafði Arion banki sent frá sér tilkynningu um að hluthafar sem ættu meira en þriðjung hlutafjár í bankanum hefðu óskað eftir frestun greiðslu arðs um tvo mánuði. Er það í takt við tilmæli Seðlabankans um að fjármálafyrirtæki endurskoði arðgreiðslutillögur sínar í ljósi óvissunnar. Hafði stjórn bankans áður lagt til að greiða út rétt tæplega 10 milljarða í arð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK