Miklar lækkanir halda áfram á mörkuðum

Mikil lækkun varð á mörkuðum í fyrstu viðskiptum í Bandaríkjunum …
Mikil lækkun varð á mörkuðum í fyrstu viðskiptum í Bandaríkjunum í dag. AFP

Hlutabréfamarkaðir hríðféllu í Bandaríkjunum í dag eftir opnun markaða. Helstu hlutabréfavísitölur hafa lækkað um 9-10%, sem kemur í kjölfarið á eldrauðri síðustu viku. Virðist sem tilraunir bandaríska seðlabankans að blása lífi í markaðinn með lækkun stýrivaxta í gær hafi lítið gert til að slá á áhyggjur fjárfesta.

Í Evrópu hefur svipuð staða verið upp á teningnum í dag. Helstu vísitölur hafa lækkað um 7-10% og hér á Íslandi hefur úrvalsvísitalan lækkað um 7,2%.

Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í gær að lækka stýrivexti sína niður í nánst núll prósent til að berjast gegn neikvæðum áhrifum á kórónuveirunnar á efnahaginn í landinu. Þetta er í annað skipti á tíu dögum sem bankinn lækkar vextina, en í byrjun mánaðarins lækkaði seðlabankinn vextina um hálft prósentustig niður í 1 til 1,25%. Í dag eru þeir hins vegar komnir niður í 0 til 0,25%.

Við opnun markaða lækkaði S&P 500 vísitalan um 8% sem orsakaði 15 mínútna stöðvun viðskipta. Þegar viðskipti héldu áfram hélt lækkunin áfram og fór vísitalan niður í 11% lækkun. Stöðvun viðskipta virkjast aftur ef lækkunin fer undir 13%, en ekki hefur enn verið nauðsyn á því og stendur lækkun dagsins sem stendur í 9-10%.

Í Evrópu hefur FTSE 100 vísitalan í Bretlandi lækkað um 6,5%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur lækkað um 7,5% og CAC 40 í Frakklandi um 8,6%.

Í Asíu lækkuðu vísitölur einnig, en nokkuð minna en í Evrópu og Bandaríkjunum. Nikkei 225 vísitalan í Japan lækkaði um 2,46% í dag og Hang Seng vísitalan fór niður um 4,03%. Vísitalan í kauphöllinni í Shanghai fór niður um 3,4%.

Mest lækkun hér á landi hefur verið á bréfum Icelandair, en lækkun félagsins í dag hefur verið 17%. Þá hafa Kvika og Reginn lækkað um rúmlega 11% og Reginn um 10%. Arion og Eik hafa lækkað um 9,5%. Bréf allra félaga hafa lækkað í dag, ef frá eru talin bréf Heimavalla sem hafa staðið í stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK