Flugfélögin þurfa 200 milljarða dala aðstoð

AFP

Flugfélög heims þurfa á 200 milljarða bandaríkjadala aðstoð að halda eigi þau að lifa af kórónuveirufaraldinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþjóðasam­bandi flug­fé­laga, IATA.

Flugfélög heims eru mörg hver í gríðarlegum vanda eftir að COVID-19-kórónuveiran fór að breiðast út um heiminn og sífellt fleiri ríki loka landamærum sínum. „Að stöðva útbreiðslu COVID-19 er forgangsverkefni ríkisstjórna,“ segir forstjóri IATA, Alexandre de Juniac, en yfir níu þúsund (9.115) hafa látist úr veirunni. Alls hafa 222.642 fengið veiruna og af þeim hafa 84.506 náð bata.  

Hann segir að ríkisstjórnir megi hins vegar ekki horfa fram hjá því ófremdarástandi sem ríki í efnahagslífi heimsins, þar á meðal í flugrekstri. Segir hann að farsóttin nú hafi miklu víðtækari og alvarlegri afleiðingar fyrir flugrekstur í heiminum en árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001, SARS og fjármálakreppan árið 2008. „Flugfélög eru að berjast fyrir lífi sínu,“ segir hann og varar við því að milljónir starfa séu í húfi. 

AFP

IATA-samtökin hvetja ríki í Afríku og Mið-Austurlöndum til að taka þátt í að veita neyðaraðstoð en þar hefur flug verið stöðvað víða og eftirspurn dregist saman um 60% á þeim flugleiðum sem enn eru flognar. 

IATA bendir á að flugiðnaðurinn leggi 55,8 milljarða dala til Afríku á hverju ári og hafi skapað 6,2 milljónir starfa í álfunni. Áætla megi að framlegð flugrekstrar til vergrar landsframleiðslu Afríku sé um 2,6%.

Í Mið-Austurlöndum er framlag flugrekstrar um 130 milljarðar dala eða 4,4% af vergri landsframleiðslu svæðisins. 

„Flugfélög þurfa nauðsynlega á ríkisaðstoð að halda ef þau eiga að komast heil út úr þessari stöðu og geta tekið þátt í bataferli heimsins þegar baráttan við COVID-19 er að baki,“ segir Juniac.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK