Lóðin rjúka út í tonnavís

Gunnar Emil Eggertsson tekur ketilbjöllur upp úr kössum.
Gunnar Emil Eggertsson tekur ketilbjöllur upp úr kössum. Eggert Jóhannesson

Eftir að stjórnvöld tilkynntu á föstudaginn síðasta um samkomubann á Íslandi frá og með miðnætti 15. mars sl. tók sala á heilsuræktarvörum hjá versluninni Hreysti í Skeifunni mikinn kipp.

Gunnar Emil Eggertsson, framkvæmdastjóri Hreysti, sem tók sér augnabliks pásu í öllu annríkinu til að ræða stuttlega við ViðskiptaMoggann, segir að salan á föstudaginn hafi verið meiri en á besta degi ársins, Þorláksmessu. Aðsókn í búðina hafi síðan haldist áfram mikil daginn eftir, og eftir helgina. „Þetta er búið að vera algjört brjálæði. Sem betur fer vorum við nýbúin að fá sendingu af ketilbjöllum og handlóðum á miðvikudaginn síðasta. Við seldum tíu tonn af þessum vörum á föstudag og laugardag,“ segir Gunnar og bætti við að til viðbótar hefði sala á netinu einnig verið góð.

Hreysti var stofnuð árið 1988 og selur æfingatæki sín meðal annars til heimila og stofnana, hótela og sjúkraþjálfara, og um borð í skip.

Fólk horfir fram á minni aðsókn í líkamsræktarstöðvar

Gunnar segir að ástæðan fyrir þessari miklu sölu nú sé augljóslega sú að fólk horfi nú fram á takmarkaðra aðgengi að líkamsræktarstöðvum á meðan á samkomubanninu stendur, og á meðan kórónuveirufaraldurinn ríður yfir. „Fólk vill halda áfram að æfa, og setur því upp heilsuræktaraðstöðu heima við í staðinn. Margir hafa greinilega verið að hugsa um þetta í einhvern tíma en taka núna stökkið og láta verða af þessu.“

Aðspurður segir Gunnar að salan hafi strax byrjað að aukast í byrjun mars en eins og fyrr sagði hafi allt farið úr böndunum fyrir síðustu helgi, þegar fólk hafi streymt í búðina.

Spurður hvernig birgðastaðan sé eftir þessa miklu sölu segir Gunnar að það hafi hreinlega verið heppni að gámur hafi borist í síðustu viku, en ketilbjöllur og handlóð séu að klárast hratt, sérstaklega í vinsælustu þyngdunum. Þær séu svo gott sem búnar. „Þetta gæti selst upp á morgun [í dag].“

Ný sending á leiðinni

Gunnar segir að ákveðið hafi verið á síðasta föstudag að senda út nýja pöntun, og er von á annarri gámasendingu í næstu eða þarnæstu viku.

Spurður um aðrar söluháar vörur þessa dagana nefnir Gunnar æfingateygjur. Þær nýtist að hans sögn vel þeim sem eru með minna pláss heima við til æfinga. Fyrir þá sem hafa meira pláss sé mjög vinsælt að kaupa róðrarvélar, þrekhjól og önnur slík æfingatæki. Spurður hvort þessi aukna sala geti haft áhrif á æfingamenningu heima fyrir til framtíðar, og tækin endi ekki bara uppi á hillu í bílskúrnum um leið og faraldurinn er genginn yfir, segir Gunnar að hann vonist til þess að fólk komi til með að nýta sér tækin áfram. „Mörg þeirra sem eru að kaupa þessar vörur nú eru fólk sem að jafnaði er virkt í líkamsæfingum. Því held ég að það muni nýta sér þetta heima til framtíðar.“

Fleiri í útkeyrslu

Salan hefur kallað á fjölgun starfsfólks hjá Hreysti, og segir Gunnar að hann hafi meðal annars fengið til liðs við sig skólafólk tímabundið, sem megi ekki sækja skóla vegna samkomubannsins. „Þá höfum við þurft að bæta við bílstjórum í útkeyrslu,“ segir Gunnar, en að því sögðu sleppir ViðskiptaMogginn takinu af framkvæmdastjóranum svo hann geti haldið áfram að sinna viðskiptavinum sem bíða óþreyjufullir eftir afgreiðslu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK