„Sprengja“ í sölu á heimaæfingatækjum

Róðravélar eru á meðal þess sem mikið hefur selst af.
Róðravélar eru á meðal þess sem mikið hefur selst af. Haraldur Jónasson/Hari

„Við höfum bara aldrei séð neitt þessu líkt áður. Í akkúrat viku er búin að vera algjör sprengja í sölu,“ segir Árni Friðberg Helgason, markaðsstjóri hjá Sportvörum, um sölu á æfingatækjum sem hægt er að nota heimavið eftir að samkomubanni var komið á síðastliðinn mánudag. Pantanir frá líkamsræktarstöðvum hafa þó dregist saman á móti. 

Rekstrarstjóri Útilífs tekur í sama streng sem og sölustjóri Arnarins. Í Útilífi er aðsókn í verslun á staðnum mun minni en vant er en hún hefur færst í auknum mæli á netið. Sala á þrekhjólum, hlaupabrautum og svokölluðum trainerum hjá Erninum er óvenjumikil miðað við árstíma. 

„Við þekkjum það frá kreppunni að þegar fólk hefur tíma fyrir sjálft sig vantar það þessar vörur og þetta er ekki dýr hlutur að fara í, að útvega sér æfingatæki, treyjuna sem þig vantar, skóna eða útivistarfatnaðinn. Þegar fólk er ekki að fara til útlanda vantar það þessar vörur,“ segir Hörður Magnússon, rekstrarstjóri Útilífs. 

Lyftingavörur rjúka út

Árni segir að pantanir á netinu hafi verið fjölmargar. Lítið er eftir af sumum vörum vegna mikillar sölu en unnið er að því að anna eftirspurn. Vinsælustu tækin hjá Sportvörum eru ketilbjöllur, handlóð, teygjur og dýnur.

„Svo hafa lyftingasett og rekkar í bílskúrsræktir, lóðaplötur og stangir selst vel að ógleymdum þrektækjum eins og hjólum og róðrarvélum.“

Jón Þór Skaftason, sölustjóri hjá Erninum, segir að óvenjumikið hafi selst af þrektækjum undanfarið miðað við árstíma og mest hafi farið af hlaupabrettum.

„Þessar vörur seljast venjulega best á haustin, þegar fólk er að undirbúa sig fyrir veturinn, en það er búið að seljast talsvert mikið af hlaupabrettum, þrekhjólum og trainerum. Þetta er ekki sölumet, samanborið við haustið, en fyrir mars er þetta mjög óvenjulegt.“

Aukningin hjá Erninum byrjaði af krafti á mánudaginn, þegar samkomubannið tók gildi, þótt hún hafi gert vart við sig um helgina og fyrir helgi. 

Enginn bilbugur á Útilífi

Verslanir Útilífs eru tvær, önnur í Kringlunni og hin í Smáralind. Framkvæmdastjóri Kringlunnar sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að gestum þar hefði fækkað um 30-45% frá sama tíma í fyrra í kjölfar samkomubanns. Hörður segir að Útilíf finni nú fyrir ákveðnum samdrætti þar sem færri sæki verslunarmiðstöðvarnar heim. 

„En það er enginn bilbugur á okkur. Við höfum farið í gegnum alls konar sjó, Útilíf er búin að vera hérna síðan 1974 en við erum að læra á þetta nýja kerfi eins og aðrir.“ 

Útilíf opnaði vefverslun nýlega og segir Hörður að viðskiptin hafi færst þangað að einhverju leyti en aukning er í sölu hjá versluninni á netinu.

„Gagnvart því að geta þjónustað okkar viðskiptavini núna sem vilja frekar versla á netinu þá er ég afskaplega glaður að vera kominn með þessa þjónustu í gang. Þetta hefur ýtt á okkur að koma öllum tæknilegum hnökrum fram hjá okkur þannig að þetta virki sem best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK