Fara í þrot ef þau þurfa að greiða uppsagnarfrest

„Þetta er ekki spurning um það hvort við komumst hjá …
„Þetta er ekki spurning um það hvort við komumst hjá kostnaði eða þurfum að leggja í kostnað, hvort þetta verði okkur dýrt eða ekki dýrt. Þessi efnahagskreppa mun alltaf verða okkur dýr,“ segir Jóhannes. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfi enn meiri stuðning til þess að standa undir launakostnaði og munu mörg hver fara í þrot ef þau þurfa að greiða uppsagnarfrest.

Að sögn Jóhannesar er það að að bjarga ferðaþjónustunni besta leiðin til að halda í þau lífskjör sem Íslendingar hafi vanist á síðastliðnum tíu árum. Þá sé minni samfélagslegur kostnaður fólginn í því að bjarga fyrirtækjunum en í því að leyfa þeim að fara í þrot og byggja þau aftur upp síðar meir.

„Launagreiðslur eru langstærsti kostnaðarliður fyrirtækjanna. Þó hlutabótaleiðin hafi lofað góðu og sé mikilvæg þá er kannski ekki nema lítill hluti fyrirtækjanna sem getur nýtt sér hana eitthvað áfram einfaldlega vegna þess að lausafé innan þeirra er af mjög skornum skammti. Þau eiga ekki fé til þess að greiða þriggja mánaða uppsagnarfrest í stórum stíl sem þýðir að þá fara þau einfaldlega í gjaldþrot ef þau þurfa að gera það,“ segir Jóhannes.

Ferðamönnum hefur fækkað mikið um allan heim.
Ferðamönnum hefur fækkað mikið um allan heim. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vandinn er djúpur og langur

Hann telur að skilningur stjórnvalda á vanda ferðaþjónustunnar sé töluverður og að ummæli ferðamálaráðherra, um að minnst tíu aðgerðapakka megi alls vænta frá ríkisstjórninni vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirunnar, séu til marks um að stjórnvöld líti á að verkefnið, að koma Íslandi upp úr efnahagslægðinni, sem mikið og stórt þó tíu pakka sé kannski ekki að vænta. 

„Mér finnst að skilningur stjórnvalda sé töluverður á þessu og vil trúa því að það muni finnast leiðir til að taka á þessum vanda. Það er alveg ljóst að menn gera sér grein fyrir því að vandinn er djúpur og langur. Það sem skiptir máli er með hvaða hætti stjórnvöld sjá sér kleift að bregðast við,“ segir Jóhannes.

Sveitarfélögin þurfi að koma að borðinu

Jóhannes gerir ráð fyrir að aðgerðir stjórnvalda verði í samræmi við stærð verkefnisins en ferðþjónustufyrirtæki sem og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar hafa lýst yfir óánægju með þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa sett fram hingað til. 

„Stjórnvöld þurfa að taka ákvarðanir sem taka á þessum sértæka vanda ferðaþjónustunnar til að gera fyrirtækjunum kleift að lifa af, það er að segja eins mörgum og mögulegt er þannig að við höfum hér atvinnugrein en ekki bara fyrirtæki á stangli þegar við förum að slá í klárinn aftur.“

Hann bætir því við að ferðaþjónustufyrirtæki verði að geta lagt niður stóran hluta starfsemi sinnar án þess að fara í þrot svo þau geti lifað lægðina af. Jóhannes segir að nauðsynlegt sé að sveitarfélögin komi inn með skýrari hætti til þess að aðstoða ferðaþjónustufyrirtækin. 

„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að sveitarfélögin stígi inn með mun skýrari hætti en þau hafa gert hingað til varðandi fasteignagjöld og fasteignaskatta sem eru til dæmis mjög stór kostnaðarliður hjá þeim fyrirtækjum sem halda úti miklum fasteignum.“ 

Efnahagskreppan verður alltaf dýr

Þá þurfi stjórnvöld að gera fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar kleift að loka og bíða af sér efnahagslægðina án þess að þau þurfi að fara í þrot, að sögn Jóhannesar. Hann segir alltaf hægt að benda á að lausnirnar verði kostnaðarsamar fyrir ríkið og sveitarfélögin.

„Þetta er ekki spurning um það hvort við komumst hjá kostnaði eða þurfum að leggja í kostnað, hvort þetta verði okkur dýrt eða ekki dýrt. Þessi efnahagskreppa mun alltaf verða okkur dýr. Spurningin er bara hvort við leggjum í kostnað í dag, í upphafi, sem gerir okkur þá kleift að minnka heildarkostnaðinn þegar upp er staðið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK