Yfir 20% samdráttur í Bretlandi

AFP

Mikill samdráttur varð í bresku efnahagslífi á milli mánaða vegna kórónuveirunnar en verg landsframleiðsla dróst saman um 20,4% í apríl frá fyrri mánuði.

Bresk stjórnvöld settu á samkomubann, þar sem íbúum var gert að halda sig heima, 23. mars í þeirri von að geta dregið úr útbreiðslu kórónuveirunnar. Jafnframt var hlutabótaleið komið á sem var ríkissjóði mjög kostnaðarsöm. 

Í tilkynningu frá Hagstofu Bretlands, ONS, kemur fram að þetta sé mesta fall í landsframleiðslu Bretlands frá því mælingar hófust árið 1997 sem sýni hversu víðtæk áhrif lokunar voru á þjónustu, framleiðslu og framkvæmdir. 

Fallið er þrisvar sinnum meira en það var í fjármálakreppunni 2008—2009. Unnið er að afléttingu hafta en miklar áhyggjur eru vegna áhrifanna af tveggja mánaða lokun á efnahagslíf Bretlands. 

Talið er fullvíst að samdráttarskeið sé hafið í Bretlandi enda voru verslanir og verksmiðjur lokaðar og starfsfólk sent heim í tvo mánuði.  

Jonathan Athow, sem starfar við landshagsskýrslugerð hjá Hagstofu Bretlands, segir að fallið á VLF sé meira en nokkru sinni áður og tæplega 10 sinnum meira en samdráttur á VLG fyrir COVID-19. „Í apríl var efnahagskerfið um 25 prósentum minna en í febrúar,“ segir hann. 

Þeir hlutar efnahagslífsins sem urðu verst úti eru krár, bílasala, mennta- og heilbrigðisfyrirtæki. 

Englandsbanki hefur varað við því að vegna COVID-19 sé hætta á að Bretland sé á leið í mesta samdráttarskeið í sögu landsins öldum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK