Minni taprekstur hjá Póstinum

Taprekstur Póstsins er mun minni á fyrstu sex mánuðum þessa …
Taprekstur Póstsins er mun minni á fyrstu sex mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. mbl.is/​Hari

Tekjur Íslandspósts lækkuðu um 8,4% á fyrstu sex mánuðum ársins í samanburði við fyrstu sex mánuði í fyrra, úr 3,7 milljörðum króna í 3,4 milljarða. Þá lækkaði rekstrarkostnaður um 300 milljónir, úr 3,6 milljörðum í 3,3 milljarða, aðallega vegna samdráttar í launakostnaði, að því er fram kemur í árshlutareikningi fyrirtækisins.

Stöðugildum fækkaði um 25% og voru 613 á móti 816 í fyrra. Jafnframt lækkaði launakostnaður um 281 milljón. Þá lækkaði hlutfall launa af tekjum þrátt fyrir samdrátt í tekjum úr 71% 2019 í 69%.

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 89 milljónum sem er 17,6% betri afkoma en á sama tímabili í fyrra þegar hún var 75,5 milljónir. Rekstrartap Íslandspósts nam 162 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum og er það betri staða en í fyrra þegar tapið nam 315 milljónum. Þá var heildarafkoma fyrirtækisins neikvæð um 164,8 milljónir á móti 256 milljón króna tapi á fyrstu sex mánuðum í fyrra.

Stefna á umbætur

„Hin mikla endurskipulagning sem stjórn og starfsfólk félagsins hafa staðið í á síðustu misserum hefur orðið til þess að kostnaðarfótur félagsins er mun minni en áður og þrátt fyrir mikið tekjufall þá tvöfaldaðist rekstrarhagnaður á fyrri helmingi þessa árs í samanburði við fyrra ár ef frá er talinn einskiptiskostnaður vegna endurskipulagningar,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Íslandspósts, í fréttatilkynningu.

Hann segir töluverðar umbætur verða á þjónustu fyrirtækisins á næstunni „þegar nær 40 sjálfsafgreiðslupóstbox verða sett upp víðs vegar um landið í fyrsta skipti en þannig mun þjónustan um allt land taka stakkaskiptum. Nýtt app mun umbreyta stafrænni þjónustu og fjölmargar aðrar nýjungar í þjónustu sem hafa verið þróaðar á síðustu mánuðum verða kynntar til sögunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK