Sóttkvíin hafði úrslitaáhrif á reksturinn

„Við fundum bæði fyrir miklum breytingum þegar faraldurinn skall á …
„Við fundum bæði fyrir miklum breytingum þegar faraldurinn skall á og við fundum líka rosalega fyrir því í fyrra þegar WOW Air datt niður. Það var alveg góður skellur,“ segir Kristján. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á ellefta ári reksturs Núðluskálarinnar á Skólavörðustíg neyddust eigendur hennar til að loka staðnum og auglýsa nú reksturinn, sem er ekki kominn í þrot, til sölu. Um er að ræða lítið fjölskyldufyrirtæki sem hjónin Kristján Hannesson og Sigurður Jónas Eysteinsson standa að. Þeir höfðu dregið reksturinn mikið saman áður en þeir þurftu endanlega að loka staðnum og hafði það úrslitaáhrif þegar þeir þurftu báðir að fara í sóttkví í lok síðasta mánaðar. 

„Á ellefta ári erum við búnir með pakkann,“ segir Kristján í samtali við mbl.is. Ástæða lokunarinnar er fyrst og fremst sú að færri ferðamenn leggja leið sína til landsins vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. 

„Við fundum bæði fyrir miklum breytingum þegar faraldurinn skall á og við fundum líka rosalega fyrir því í fyrra þegar WOW Air datt niður. Það var alveg góður skellur.“

Vonandi tekur nýtt ævintýri við

Kristján segir að þeir sjái ekki fyrir sér að komast yfir þann hjalla sem faraldurinn hefur haft í för með sér fyrir mörg fyrirtæki. 

„Það sem eiginlega setti endapunktinn á reksturinn er að við erum í sóttkví. Við vorum búnir að draga reksturinn saman þannig að það var enginn eftir nema við sjálfir svo við höndluðum það ekki.“

Fyrirtækið er, eins og áður segir, ekki komið í þrot, og því kanna Kristján og Sigurður nú hvort þeir geti selt. Kristján segir að lokun Núðluskálarinnar hafi mikil áhrif á líf þeirra. 

En hvað tekur við? 

„Vonandi nýtt ævintýri, hvað sem það verður,“ segir Kristján, bjartsýnn þrátt fyrir erfiða ákvörðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK