Fjöldi farþega þrefaldaðist á milli mánaða

Boeing Max 8 þota Icelandair.
Boeing Max 8 þota Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Fjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair rúmlega þrefaldaðist á milli maí og júní. Farþegar í millilandaflugi í júní voru 72 þúsund samanborið við tæplega 22 þúsund farþega í maímánuði.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir júnímánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Icelandair hefur aukið jafnt og þétt við flugframboð og fjölda áfangastaða undanfarnar vikur.

Sætanýting félagsins í millilandaflugi var 53,2 prósent í júní en samkvæmt fyrirtækinu skýrist það að hluta til af því að félagið notar stærri vélar á ákveðnum flugleiðum til að mæta eftirspurn eftir fraktflutningum samhliða farþegaflugi.

Fraktflutningar jukust um 12 prósent á milli ára.  

Fjöldi farþega til Íslands rúmlega 45 þúsund

Fjöldi farþega til Íslands var rúmlega 45 þúsund í júní og eru það tæplega fjórfalt fleiri en komu til landsins með Icelandair í júní í fyrra.

Fjöldi farþega frá Íslandi var rúmlega tólf þúsund, samanborið við rúmlega sex þúsund í júní í fyrra. Farþegar yfir hafið voru rúmlega 14 þúsund og hafa ekki verið fleiri síðan í mars á síðasta ári.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var rúmlega 22.000 sem er fjölgun um 4.000 farþega miðað við maímánuð og 10.000 fleiri farþegar en ferðuðust með innanlandsflugi félagsins í júní í fyrra.

Sætanýting í innanlandsflugi var 72,7 prósent samanborið við 73,5 prósent í júní í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK