IKEA hagnast um 500 milljónir króna

IKEA á Íslandi.
IKEA á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklatorg hf., sem er rekstraraðili IKEA á Íslandi, hagnaðist um 500 milljónir króna á reikningsárinu sem stóð frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2020. Er það mikil aukning frá árinu 2019 þegar hagnaðurinn nam 210 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi fyrirtækisins.

Vörusala nam 12,3 milljörðum króna og jókst um tæplega 300 milljónir. Í skýringum með reikningnum segir að sala hafi dregist saman um 15% frá marsmánuði 2020 og fram til júlímánaðar en að eftir það hafi salan verið á uppleið.

Brugðust stjórnendur fyrirtækisins m.a. við með því að lækka launakostnað og hagræða í rekstri. Launakostnaður hækkaði lítillega milli ára og nam tæpum 2,9 milljörðum króna. Laun framkvæmdastjóra félagsins lækkuðu verulega, fóru úr 52 milljónum árið 2019 í 31 milljón í fyrra. Miklatorg greiddi á síðasta rekstrarári 368 milljónir í leyfisgjöld til IKEA og hækkuðu gjöldin um rúmar 8 milljónir frá fyrra ári. Heildareignir Miklatorgs námu 2,7 milljörðum í lok ágúst í fyrra og höfðu aukist um ríflega 300 milljónir frá fyrra ári. Skuldir félagsins námu tæpum 1,8 milljörðum króna og höfðu lækkað um ríflega 70 milljónir á árinu.

Eigið fé félagsins stóð því í ríflega 970 milljónum við lok reikningstímabilsins og hafði vaxið um tæp 70% milli ára. Handbært fé í lok rekstrarársins nam 475 milljónum en hafði staðið í 7,5 milljónum við uppgjör ársins 2019. Samkvæmt skýrslu stjórnar er lagt til að greiddur verði arður vegna liðins rekstrarárs sem nemi 500 milljónum króna. Miklatorg hf. er í eigu bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK