Ótrúlegur vöxtur á tveimur árum

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp.
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrirtækið er ekki orðið tveggja ára gamalt en okkur hefur þegar tekist að breyta ferðahegðun þúsunda íbúa á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Við ætlum okkur stærri hluti og stefnum á að breyta ferðahegðun fólks um allan heim,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík.

Hinar grænu rafskútur Hopps fara ekki fram hjá neinum sem ferðast um á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana. Sæunn tók við starfi framkvæmdastjóra í mars síðastliðnum og skömmu síðar tók Hopp á móti 1.100 nýjum rafskútum og stækkaði þjónustusvæðið frá Reykjavík til Hafnarfjarðar.

„Þetta var stórt stökk en það var tekið að vel ígrunduðu máli. Við vorum með 300 skútur í flotanum en höfðum greint í hugbúnaðinum gríðarlega vöntun. Stækkunin á sér stað út frá eftirspurn notenda,“ segir hún.

Þjónusta Hopps er afar umhverfisvæn enda er hún alfarið keyrð á rafmagni. Hugbúnaðurinn að baki Hopp er alfarið unninn á Íslandi af hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja, en eigendur þess eiga einnig Hopp Hopp, og sama gildir um hönnun á appinu sem tengir notendur við skúturnar. „Notendur okkar geta því sagt: „Íslenskt já, takk,“ því hinar rafskútuleigurnar eru allar með erlendan hugbúnað,“ segir Sæunn.

144 þúsund skráðir notendur

Óhætt er að segja að vöxtur fyrirtækisins hafi verið hraður. Haustið 2019 byrjaði það með 60 rafskútur miðsvæðis í Reykjavík en vinsældirnar voru slíkar að fljótlega var 300 rafskútum bætt við. Eins og áður segir bættust svo 1.100 við í vor en við það tækifæri voru eldri skúturnar, sem að sögn Sæunnar áttu þó nóg inni, seldar til sérleyfishafa Hopp víða um land. Hopp er nú með starfsemi á Akranesi, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Hveragerði og í Reykjanesbæ.

„Sveitarfélögin sem prufukeyrðu Hopp í sumar eru búin sýna það og sanna að eftirspurnin er víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Lítil fjölskyldufyrirtæki sérleyfanna munu stækka hratt því þau ásamt fleiri nýjum sérleyfum eru að gera áætlanir um stærri fjárfesingar fyrir næsta ár,“ segir framkvæmdastjórinn en í dag starfa um 30 manns hjá Hopp á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtækið er með vakt allan sólarhringinn.

Sæunn segir að rafskútan hafi heldur betur sannað gildi sitt sem samgöngumáti. Fólk vilji hafa val um fjölbreytta og umhverfisvæna ferðamáta, það sé framtíðin. Rafskútan nýtist sérstaklega vel í borgum eins og Reykjavík þar sem ekki er fullkomið lestarkerfi. „Við erum komin með 144 þúsund notendur á skömmum tíma sem fara fleiri þúsund ferðir á dag.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK