Fáir hafa selt hlut sinn í Íslandsbanka eftir útboðið

Fá dæmi eru um að aðilar sem tóku þátt í útboði Bankasýslunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka þann 22. mars sl. hafi minnkað eignarhlut sinn eftir útboðið eða selt hlut sinn alfarið.

Nokkuð hefur verið fjallað um fjárfestingu íslenskra aðila í útboðinu sem hafa verið áberandi í atvinnulífinu hér á landi og fluttar af því fréttir að viðkomandi aðilar hafi selt hlut sinn, ýmis að hluta eða í heild, að útboðinu loknu. Morgunblaðið hefur þó fengið staðfest frá nokkrum þeirra að svo er ekki.

Þannig má nefna að eignarhaldsfélagið Bóksal, sem var stærsti einkaaðilinn sem tók þátt í útboðinu, með fjárfestingu upp á um 1,2 milljarða, halda enn á sínum hlut. Eigendur Bóksals eru hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, sem eru jafnframt eigendur heildsölunnar Johan Rönning.

Fjárfestingafélagið Kristinn, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, oft kennd við Ísfélag Vestmannaeyja, heldur enn á sínum hlut en félagið fjárfesti fyrir um 470 milljónir króna í útboðinu. Það sama má segja um eignarhaldsfélagið Stein, sem er í Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og fv. eiginkonu hans, sem fjárfesti fyrir um 300 milljónir króna.

Tvö félög í eigu Þórðar Más Jóhannessonar, fyrrverandi stjórnarformanns Festar, fjárfestu í útboðinu fyrir um 108 milljónir króna. Í samtali við Innherja á visir.is staðfestir Þórður Már að hann hafi ekki selt þá hluti.

Hlutirnir í geymslu annarra fjármálafyrirtækja

Þetta eru nokkur dæmi um þau félög og einstaklinga sem fjallað hefur verið um síðustu daga, m.a. í umræðu á vettvangi stjórnmála. Í þessum tilvikum, og mörgum fleiri, eru hlutabréfin í bankanum vistuð hjá öðrum fjármálafyrirtækjum, bæði bönkum og verðbréfafyrirtækjum, og því er eignarhlutur þeirra ekki sjáanlegur á hluthafalista Íslandsbanka.

Bankasýsla ríkisins birti fyrr í dag upplýsingar um samanburð á hluthafalista Íslandsbanka og niðurstöðu fagfjárfestaútboðs. Þar kemur fram að 25 fjárfestar hafi aukið við eignarhlut sinn í bankanum eftir útboðið og að samanlagður eignarhlutur þeirra sé tæplega 29% ef miðað er við hluthafa lista frá 11. apríl.

Fram kemur að 87 fjárfestar séu með óbreyttan eignarhlut og fari með um 10% hlut í bankanum, en að 34 fjárfestar hafi minnkað eignarhlut sinn að hluta en samanlagður eignarhlutur þeirra sé um 4% af hlutafé bankans.

Þá kemur einnig fram í upplýsingum Bankasýslunnar að 60 fjárfestar birtist ekki á hluthafalista nú, sem geti meðal annars gæti skýrst af því sem hér hefur komið fram, þ.e. að eignarhlutur þeirra sé í vörslu annarra aðila. Þá er vakin athygli á því að hlutafjáreign fjármálastofnana í Íslandsbanka fór úr 0,3% fyrir útboð í 4,1% af heildar hlutafé þann 11. apríl. Sú aukning samsvarar um 75% af eignarhlut þeirra fjárfesta sem keyptu í útboðinu en birtast ekki á hluthafalistanum.

Loks kemur fram að fjöldi hluthafa Íslandsbanka hafi verið 15.304 þann 11. apríl og að þeim hafi fjölgað um 125 frá útboðsdegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK