Mun meira gull í Vagarhrygg en áður var talið

Eldur Ólafsson, forstjóri AEX Gold.
Eldur Ólafsson, forstjóri AEX Gold.

Niðurstöður rannsókna á svæðinu í kringum Vagarhrygg á Suður-Grænlandi sýna fram á að þar er að finna mun meira gull en áður var talið og að vænlegt gullvinnslusvæði sé umtalsvert stærra en fyrri rannsóknir bentu til.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem send er út fyrir hönd AEX Gold.

„Á árinu 2021 lagði AEX Gold Inc. Í umfangsmikla rannsóknarvinnu á Vagar leitarsvæðinu, sem m.a. fól í sér notkun, rafsegulmælinga, steinefnakerfislíkana, myndgreiningar úr lofti og af jörðu og greiningu könnunarsýna,“ segir í tilkynningunni.

„Niðurstöður rannsóknanna benda til þess að á Vagarhrygg sé að finna allt að fjórar vinnsluhæfar gullæðar, en gullinnihald í könnunarsýnum var allt að 86,7 grömm í hverju tonni af grjóti. Þar fyrir utan er innihald gulls í berggrýti utan æðanna verulegt, eða allt að 14,4 g/t. Í hefðbundinni neðanjarðarnámu er hlutfall gulls á bilinu 4-6 g/t.“

Hvetjandi niðurstöður

Þá kemur fram í tilkynningunni að mögulegt vinnslusvæði hafi verið metið á tvo ferkílómetra en nú er það metið á fjóra. 

„Áður hefur verið borað á Vagarhrygg og var gullinnihald í borkjörnunum það hæsta sem fundist hefur á Grænlandi, eða yfir 2000 g/t. AEX metur gullmagnið á svæðinu svo mikið að um sé að ræða einn stærsta gullfund síðustu 20-30 ára í heiminum öllum og að Vagarhryggur geti orðið eitt mikilvægasta gullvinnslusvæði heims, eða „elephant deposit“ eins og slík svæði eru stundum kölluð. AEX ætlar að framkvæma frekari tilraunaboranir á svæðinu í sumar til að sannreyna þá kenningu.“

„Niðurstöðurnar frá Vagarhrygg eru einstaklega hvetjandi. Við höfum alltaf staðið í þeirri trú að umtalsvert meira magn af gulli væri til á Vagar svæðinu og að vinnslusvæðið gæti verið mun stærra. Niðurstöður rannsóknanna sýna að þessi trú okkar var á rökum reist,“ er haft eftir Eldi Ólafssyni, forstjóra AEX Gold, í tilkynningunni. 

AEX var stofnað árið 2017 með megináherslu á gullleit og -rannsóknir á Grænlandi. Fyrirtækið er með leyfi til að leita að og vinna gull og aðra verðmæta málma í Suður-Grænlandi. Stærsta eign AEX er Nalunaq gullnáman, sem verið er að koma aftur í vinnslu.

Hlutabréf AEX eru skráð í kauphallirnar í Toronto og London, en meðal stærstu hluthafa í félaginu eru íslenskir fjárfestar, þjóðarsjóðir Grænlands og Danmerkur og stærsti lífeyrissjóður Grænlands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK