25-falda framleiðslugetu sína

Katrín Amni Friðriksdóttir og Viðar Þorkelsson standa að Foodsmart Nordic.
Katrín Amni Friðriksdóttir og Viðar Þorkelsson standa að Foodsmart Nordic. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Framleiðslutækin komu til landsins í vikunni og eru á leiðinni norður og framkvæmdir við 500 fermetra framleiðsluhús eru á lokastigi, þannig að starfsemi ætti að geta hafist á öðrum ársfjórðungi,“ segja Katrín Amni Friðriksdóttir stjórnarformaður og Viðar Þorkelsson, framkvæmdastjóri Foodsmart Nordic, nýs frumkvöðlafyrirtækis í fæðubótarefnum, en téð hátækniframleiðsluhús er á Blönduósi.

Foodsmart Nordic skilgreinir sig sem þekkingarfyrirtæki á sviði framleiðslu á fæðubótarefnum í sjávartengdum vörum og frumkvöðul í framleiðslu á fiskkollageni á Íslandi. Félagið sér mikil tækifæri í framleiðslu á hágæða fæðubótarefnum úr íslenskum hráefnum í samstarfi við önnur fyrirtæki í matvælaiðnaðinum. „Foodsmart Nordic mun styðja við önnur fyrirtæki og við erum opin fyrir öllum góðum hugmyndum,“ segir Viðar.

Í dag framleiðir félagið kollagen, sæbjúgnaduft og fiskprótein í þróunarsetri sínu á Skagaströnd og selur til innlendra aðila. Foodsmart Nordic hyggst stunda kraftmikla nýsköpun og þannig styðja við uppbyggingu og framleiðslu á hágæða fæðubótarefnum á Íslandi. „Okkar hlutverk er að koma hollustunni úr náttúrunni og fiskinum í hylki,“ segir Katrín.

Hágæða hráefni í duftformi

 

Nýju framleiðslutækin munu skila hágæða hráefni í duftformi og nýtast við þurrkun á breiðu sviði af hráefnum og afkasta um 350 tonnum á ári. Með nýja húsnæðinu og framleiðslutækjunum mun félagið 25-falda framleiðslugetu sína. Heildarfjárfesting verk­efnisins er um 500 m.kr. og er fjármögnun á fjárfestingunni að fullu lokið en félagið jók hlutafé í desember síðastliðnum um 100 m.kr.

​Framleiðsluhús Foodsmart Nordic á Blönduósi er að verða tilbúið.
​Framleiðsluhús Foodsmart Nordic á Blönduósi er að verða tilbúið.


Bæði eru þau gríðarlega spennt fyrir Foodsmart-verkefninu enda komi það til með að leysa ýmis vandamál. „Við eigum hráefnin í landinu en það hefur skort framleiðslugetu. Með tilkomu þessa sérhæfða húsnæðis á Blönduósi verður staðan allt önnur og betri. Húsnæðið verður vottað og styður við útflutning,“ segir Viðar.

Þau segja markmið Foodsmart Nordic leynt og ljóst að gera Ísland að þátttakanda á hinum alþjóðlega fæðubótarmarkaði. „Sóknarfærin eru sannarlega fyrir hendi. Lengi hefur staðið til að fara í útflutning á fæðubótarefnum en strandað hefur á framleiðslugetunni, þar til nú. Auðvitað er alveg hægt að framleiða vöru sem þessa erlendis en við viljum miklu frekar gera það hér heima,“ segir Katrín.

Viðar bætir við að þeim hafi verið vel tekið á sölusýningum og ráðstefnum á þessu sviði erlendis. „Það gefur okkur kraft.“

Nánar er fjallað um Foodsmart Nordic í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK