Sjarmur og garmur gjaldþrota

Athafnarmennirnir Sigmar Vilhjálmsson og Skúli Gunnar Sigfússon, sem jafnan hefur …
Athafnarmennirnir Sigmar Vilhjálmsson og Skúli Gunnar Sigfússon, sem jafnan hefur verið kenndur við Subway, hafa brallað ýmislegt saman í gegnum tíðina. Þeir stofnuðu saman félögin Sjarm og garm og Stemmu, en síðar var tekist á í dómsölum í gegnum þau félög vegna sölu á lóð á Hvolsvelli. Að endingu hafði Skúli betur í því máli. Samsett mynd

Félagið Sjarmur og garmur ehf., sem var í eigu athafnarmannanna Sigmars Vilhjálmssonar og Skúla Gunnars Sigfússonar, í gegnum eignarhaldsfélögin Immis ehf. og Leiti eignarhaldsfélag ehf., hefur verið úrskurðað gjaldþrota af Héraðsdómi Reykjaness. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

Sjarmur og garmur var talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum eftir að Sigmar og félagið stefndu öðru félagi sem heitir Stemma og vildu að ákvörðun hluthafafundar þess um að selja lóðarréttindi á Hvolsvelli til þriðja félagsins, Fox ehf., yrði ógilt.

Stemma var einnig upphaflega stofnað af þeim Sigmari og Skúla í tengslum við opnun sýningar um eldgosið í Eyjafjallajökli sem síðar varð að Lava-setrinu. Félagið átti umrædd lóðarréttindi en seldi þau til félagsins Fox.

Fox er í eigu Pálmars Harðarsonar í gegnum verktakafyrirtækið Þingvang, en fyrir dómstólum kom fram að Sigmar hafi verið ósáttur með að tilboði Fox í lóðir að Austurvegi 12 og 14 hafi verið tekið án þess að þær væru verðmetnar. Hafði Íslandshótel áður gert tilboð í lóðirnar upp á 50 milljónir, en tilboði Fox og Þingvangs í aðra lóðina og kauprétt á hinni var samþykkt, en það hljóðaði upp á 25 millj­ón­ir og 15 millj­ón­ir voru í kauprétt á hót­ellóð.

Sigmar og Sjarmur og garmur höfðu betur í héraðsdómi á sínum tíma og var ákvörðun hluthafafundarins ógilt. Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu hins vegar við áður en Hæstiréttur ógilti ákvörðun Landsréttar og vísaði málinu aftur til meðferðar dómstólsins. Aftur varð niðurstaða Landsréttar sú sama og í kjölfarið hafnaði Hæstiréttur að taka málið fyrir að nýju. Var það í lok árs 2020.

Stóð því ákvörðun hluthafafundarins um að selja lóðirnar til Fox.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK