Starfslokasamningur Birnu opinber á næsta ári

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Finnur Árnason stjórnarformaður.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og Finnur Árnason stjórnarformaður. Samsett mynd

Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka, segir að starfslokasamningur hafi verið gerður við Birnu Einarsdóttur, fráfarandi bankastjóra, í samræmi við hennar ráðningarsamning og í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki.

Spurður vill hann ekki nefna upphæðina en segir að samningurinn verður gerður opinber, líklega í ársuppgjöri í byrjun febrúar á næsta ári.

„Hún óskar eftir því að fá að stíga frá borði og er þar að hugsa um hagsmuni bankans. Í sjálfu sér var þetta tiltölulega einfalt,“ bætir Finnur við um fundinn með Birnu sem stóð fram á nótt. „Stjórnin féllst á þetta en það er eftirsjá eftir Birnu. Hún er búin að vera lengi og standa sig frábærlega.“

Var þetta það eina í stöðunni miðað við það sem á undan var gengið?

„Hennar mat, ábyggilega eftir þá þungu umræðu sem hefur verið, var að þetta væri best fyrir bankann og tók þá ákvörðun út frá þeim hagsmunum.“

Mikilvægt að ráða einhvern sem þekkir til

Spurður hvort fleiri hafi verið látnir hætta í Íslandsbanka í kjölfar útboðsins á 22% hlut ríkisins í bankanum í fyrra og núna eftir að skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um sáttina við bankann var gerð opinber kveðst Finnur sem stjórnarformaður eingöngu tjá sig um bankastjórann. Hann hafi ekki forræði yfir öðru starfsfólki.

Finnst þér eðlilegt að stjórnin hafi ákveðið að fastráða Jón Guðna sem nýjan bankastjóra á þessum tímapunkti?

„Jón Guðni er fastráðinn starfsmaður og hefur verið. Hann er búinn að vera fjármálastjóri frá 2011, búinn að vinna þar áður hjá forverum bankans í mörg ár. Hann hefur verið staðgengill bankastjóra um nokkurt skeið. Það skiptir máli fyrir samfellu í rekstri og þau mikilvægu verkefni sem við erum að sinna að vera með einhvern sem þekkir til og Jón Guðni gerir það svo sannarlega,“ svarar Finnur, og bætir við að Jón Guðni hafi ekki verið ráðinn sem bankastjóri til einhvers ákveðins tíma, enda sé hann fastráðinn starfsmaður.

Hluthafafundur eftir mánuð

Hann segist gera ráð fyrir því að stjórnarkjör verði á næsta hluthafafundi, sem er áætlaður 28. júlí. Þá muni hluthafar ráða sínum ráðum og taka ákvarðanir. Meðal annars verður farið ítarlega, að sögn Finns, yfir sáttina sem bankinn gerði við fjármálaeftirlitið. Hann segir ekki vera þörf á „hreinsunum“ innan stjórnar bankans en bendir á að það sé hluthafa að taka slíka ákvörðun. „En ég held að það sé alveg ljóst að stjórn vill hafa umboð áfram og hluthafarnir veita það umboð.“

Íslandsbanki var sektað um 1,2 milljarða króna af fjármálaeftirliti Seðlabanka …
Íslandsbanki var sektað um 1,2 milljarða króna af fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Samsett mynd

Segjast ekki hafa blekkt Bankasýsluna

Spurður út í brot Íslandsbanka og umræðuna í kjölfar þeirra minnist Finnur á tilkynningu bankans um að stjórn hans hafði frumkvæði að því að innri endurskoðandi gerði úttekt á framkvæmdinni í apríl í fyrra. Hann skilaði skýrslu sinni 5. maí og var hún eftir það send til fjármálaeftirlitsins. Í skýrslunni komi fram brotalamirnar sem birtust í sáttinni við fjármálaeftirlitið.  

„Í stórum dráttum var fjármálaeftirlitið uppýst um stöðuna þá. Við fengum síðan í árslok þeirra frummat. Ég held að það hafi verið 6. janúar sem við óskuðum eftir því að ganga til sátta fyrir þau brot sem kynnu að hafa verið brotin,“ greinir Finnur frá og nefnir að bankinn hafi í sáttinni fallist á hluta brotanna, m.a. um að ekki hafi verið gert hagsmunaárekstramat og að upptökur í símum hafi ekki verið gerðar.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á fundi stjórnskipunar- og …
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á síðasta ári. mbl.is/Hákon

„En það eru hins vegar atriði í sáttinni sem við föllumst ekki á og við höfum komið okkar andmælum á framfæri. Hluti af þeim andmælum er í sáttinni. Í meginatriðum tók fjármálaeftirlitið ekki tillit til neinna athugasemda sem við gerðum við þeirra frummat. Ein af þeim er til dæmis að við föllumst ekki á það að hafa blekkt Bankasýsluna.“

Spurður út í næstu skref í ljósi þessa segir hann stjórnina ætla að gera hluthöfum bankans grein fyrir hennar afstöðu og fara yfir skýrsluna á hluthafafundinum. Þar muni sjónarmið stjórnarinnar koma fram varðandi allt ferlið.

Vinna í úrbótum 

Er eitthvað í skýrslu fjármálaeftirlitsins sem kom þér á óvart?

„Nei, við vorum búin að greina þessa framkvæmd hér innandyra 5. maí á síðasta ári. Þá þegar var byrjað að vinna að úrbótarverkefnum. Mörg þeirra eru frá en við erum enn að vinna í úrbótarverkefnum. Hluti af sáttinni er aðgerðaáætlun því tengdu,“ svarar Finnur. „Þetta er mikil vinna. Það þarf að uppfylla margar skyldur þegar þú ert banki á Íslandi.“

Spurður hvort ekki þurfi að endurvinna traust í garð bankans segir hann það vera stórt verkefni framundan. „Ég er sannfærður um að allir innan Íslandsbanka eru heilshugar á þeirri vegferð að endurvinna það traust sem glataðist við þennan atburð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK